*

Tölvur & tækni 17. mars 2015

Apple á sjónvarpsmarkaðinn

Búist er við því að í haust verði hægt að borga eitt áskriftargjald og fá aðgang að 25 sjónvarpsstöðvum þar á meðal ABC, CBS, FOX og ESPN.

Bandaríska stórfyrirtækið á í viðræðum við fjölmargar sjónvarpsstöðvar um að bjóða upp á þjónustu þeirra í Apple TV og öðrum iOS-tækjum eins og iPhone og iPad. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Fyrirtækið stefnir að því að vera með 25 stöðvar sem notendur geta keypt aðgang að og borgað eitt gjald fyrir. Reiknað er með því að áskriftin muni kosta um 30 til 40 dollara og verði í boði í haust.

Á meðal sjónvarpsstöðva sem verða í þessum pakka eru ABC, CBS, FOX, ESPN og hugsanlega Disney. Apple átti einnig í viðræðum við Comcast, sem á meðal annars NBCUniversal, en það slitnaði upp úr þeim.

Í síðustu viku var greint frá því að Apple hefði samið við HBO um að streyma efni frá sjónvarpsstöðinni gegn áskriftargjaldi.