*

Tölvur & tækni 13. desember 2012

Apple tekur Google í sátt

Kortakerfið Google Maps verður aftur fáanlegt í netverslun Apple.

Apple ætlar að selja leiðsögukerfið Google Maps á nýjan leik í iTunes-netverslun sinni og geta eigendur iPhone-síma náð í það á nýjan leik. Þrír mánuðir eru síðan Apple skipti út kerfi Google fyrir eigin leiðsögukerfi og var það í nýjustu símum fyrirtækisins, iPhone 5. Eins og margoft hefur komið fram varð Apple heldur betur fótaskortur á tæknisvellinu og eru dæmi um að notendur kortakerfis Apple hafi endað út í vegleysum þegar þeir reyndu að rata eftir því.

Helstu stjórnendur Apple hafa viðurkennt að hafa verið úti í móa tæknilega séð og látið þá sem hönnuðu kortabúnað undir merkjum fyrirtækið taka poka sína.

Eins og fram kemur á vef bandaríska dagblaðsins USA Today þá sendi Google frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að búið sé að endurhanna og bæta kortakerfið í Google Maps og sé það betra en áður. Þá munu stjórnendur netverslunar Apple vera búnir að samþykkja leiðsögukerfið nýja og verði því hægt að selja það aftur í netversluninni.

Stikkorð: Apple  • Google  • iPhone  • Google Maps  • iPhone 5