*

Matur og vín 30. desember 2015

Áramót víngæðinga

Stærstu fréttir fyrir víngæðinga á árinu voru breytingar á opinberum gjöldum á áfengi.

Arnar Sigurðsson

Áfengisgjald á Íslandi er það þriðja hæsta í heiminum, næst á eftir samanburðarlandinu Rúanda en efst trónir framtíðarland Gunnars Smára fjölmiðlakóngs, Noregur. Þar er reyndar svo kalt nú um þessar mundir að þarlendir sósíalistar neyðast til að halda krumlunum í eigin vösum sem vitaskuld tengist áfengsgjaldi ekki neitt en er einstakt engu að síður.

Nú um áramótin breytir ríkisvaldið skattpíningarstefnu sinni á áfengi. Eftir sem áður, miðast áfengisgjaldið við styrkleika, þ.e. áfengi og magn mælt í millilítrum. Gróflega reiknað hækkar áfengisgjald af léttvínsflösku um 120 kr. sem er lítil breyting en samsvarandi hækkun á vodkaflösku er 500 kr. og dæmigert fernusull hækkar um 300 kr. Hins vegar lækkar virðisaukaskattsprósenta úr 24% í 11% sem áætlað er að haldi heildartekjum ríkissjóðs af ósómanum óbreyttum. Ástæða breytingarinnar er einföldun á virðisaukaskattsuppgjöri hjá vínveitingahúsum en þar er matur með 11% virðisauka.

Áður höfðu óprúttnir veitingamenn getað hagrætt virðisaukaskattsuppgjöri sínu með því að bóka sölu sem mat í stað áfengis. Ódýrustu léttvínin og bjór hækka því við þessa breytingu þar sem áfengisgjaldið vegur þyngra en t.d. í dýrari eðalvínum þar sem virðisaukaskattsprósenta telur meira. Rétt er að leiðrétta þann þráláta misskilning að skattlagning á áfengi snúist bara um óseðjandi fégræðgi hins opinbera. Hið rétta er að einungis er um að ræða klassíska neyslustýringu til þess að draga úr líkum þess að veiklundaðir verði áfenginu að bráð.

Þriðjungs skattheimta þýðir auðvitað að ríkisvaldið skilur eftir þriðjungi minna í flöskunni fyrir neytandann sem augljóslega heldur aftur af neyslunni og er margsannað með mörgum rannsóknum lýðheilsufræðinga. Væntumþykjan nær þó ekki til hinnar rangnefndu „fríhafnar“ í Leifsstöð því þar telur löggjafinn ekki þörf á áfengisgjaldi eða virðisaukaskatti. Samviskusamir stjórnendur hafa reyndar bætt það upp með allt að 60% álagningu sem kannski kemur að sömu notum. Í öllu falli stendur eftir að hið opinbera tekur fyrsta sopann svo þú drekkir minna.

Nánar er fjallað um málið í tímaritinu Áramót sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Kampavín