*

Bílar 2. október 2015

Arftaki Legacy kynntur hér á landi á morgun

Subaru Levorg verður frumsýndur á morgun, laugardag, hjá BL við Sævarhöfða.

Levorg er nýjasti meðlimur Subaru fjölskyldunnar og verður kynntur hér á landi á morgun. Þessi nýi bíll byggir á arfleifð Subaru Legacy sem var um árabil vinsæll alhliða ferða- og fjölskyldubíll. Ættarleggurinn er augljós því nafn bílsins, Levorg, stendur einmitt fyrir Legacy Revolution Touring.

Levorg er bæði hærri, lengri og breiðari en fyrirrennarinn, Legacy, og má sem dæmi nefna að farangursrýmið er 522 lítrar. Levorg er m.a. búinn endurhannaðri 1,6 lítra BOXER bensínvél með nýrri Twin-Scroll túrbínutækni sem skilar meira afli og nýtir eldsneytið betur en tveggja lítra vélin gerði. Nýja vélin skilar 170 hestöflum. Eldsneytisnotkun í blönduðum akstri er einungis 6,9 lítrar á hundraðið samkvæmt viðmiðunartölum framleiðanda sem er nokkuð gott miðað við afl vélarinnar. Bíllinn er búinn Start/Stopp búnaði. Dráttargeta Levorg er 1500 kg.

Subaru Levorg er með nýja gerð af skynvæddu fjórhjóladrifi sem aðstoðar ökumann við að komast leiðar sinnar við erfiðar aðstæður. Dynamics Control System búnaðurinn fylgist allt í senn með afli til hjólanna, eldsneytisinngjöf og þyngdarhreyfingum bílsins og samhæfir fjórhjóladrifið afldreifingu til hjólanna til að hámarka drifgetuna í samræmi við aðstæður hverju sinni. Þá er Levorg ennfremur búinn stiglausri Lineartronic sjálfskiptingu sem er samhæfð Intelligent-Drive stjórnbúnaði Subaru sem tryggir að vélin skili ávallt hámarksnýtingu afls með lágmarkseldsneytiseyðslu.

Við hönnun Levorg var einkum haft að leiðarljósi að útlitið væri bæði nýtískulegt og sportlegt og höfðaði ekki síst til yngra fjölskyldufólks sem gerir kröfur um gott rými, mikil þægindi, góða aksturseiginleika og alhliða getu árið um kring eins og fylgir nútíma lífsstíl. Bíllinn verður frumsýndur á morgun, laugardag, hjá BL við Sævarhöfða.

Stikkorð: Subaru  • Levorg