*

Tölvur & tækni 21. ágúst 2012

Arion banki kominn með banka-app

Nýtt snjallsímaforrit frá Arion banka hefur litið dagsins ljós. Með forritinu er hægt að fara í heimabankann í símanum.

Arion banki hefur sett í loftið nýtt snjallsímaforrit (app) sem gerir viðskiptavinum bankans kleift að fylgjast með fjármálum sínum í símanum með einum smelli og án innskráningar. Appið er viðbót við farsímavefinn sem hefur verið í boði síðan í nóvember 2011 og gerir notendum kleift að vera ávallt tengdir við bankann sinn. 

Í tilkynningu frá bankanum segir að með appinu geti viðskiptavinir hans fylgst með færslum sínum og stöðu reikninga og korta án þess að þurfa að skrá sig inn í netbankann. Þar að auki er hægt að sjá yfirlit yfir ógreiddar kröfur, fá sendar tilkynningar um greiðslur inn á reikninga og fá senda aðvörun þegar reikningur hefur farið á FIT (úttekt án heimildar) svo fátt eitt sé nefnt.

Appið veitir yfirlitsheimild hjá viðkomandi viðskiptavini en til að hann geti millifært á milli reikninga í appinu þarf hann að skrá sig inn með hefðbundinni auðkenningu. Þetta þarf einungis að gera ef framkvæma á fjárhagslegar færslur. 

Appið virkar í nýlegum Apple- og Android-símum og það þarf að setja sérstaklega upp á símanum. Það er gert eins og með önnur hefðbundin öpp í gegnum Appstore hjá Apple eða í Google Play fyrir Android. Appið virkar fyrir alla þá sem eru með netbanka Arion banka, hvort sem er einstaklinga eða fyrirtæki. 

Almennar upplýsingar um appið er að finna á http://www.arionbanki.is/app

Stikkorð: Arion banki