*

Tölvur & tækni 30. maí 2014

Armbandsúr og sjónvarp frá Apple

Talið er að Apple gæti kynnt margar spennandi vörur á þróunarráðstefnu fyrirtækisins í næstu viku.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir árlegri þróunarráðstefnu Apple sem hefst í San Fransisco á mánudag. Líklegt þykir að Apple muni kynna nýjar og spennandi vörur á ráðstefnunni. Samkvæmt heimildum EPN, sem fjallar um ráðstefnuna, eru nýjungar væntanlegar sem gætu verið þær mest spennandi í 25 ár.

Tvær vörur sem hafa verið nefndar sérstaklega í þessu samhengi eru iWatch armbandsúr og byltingarkennt sjónvarp frá Apple. Haft er eftir sérfræðingi að þessar vörur geti verið að sömu stærðargráðu og Ipod og Iphone. Þriðja nýjungin sem hefur verið nefnd til sögunnar er stýrikerfi fyrir heimilið, en fjallað var um það á VB.is í vikunni.

Í viðbót við þessar vörur er þvi spáð að fleiri nýjungar verði kynntar á ráðstefnunni, svo sem nýjar útgáfur af Iphone eða Ipad og nýtt IOS stýrikerfi.  

Þrátt fyrir að einungis sé um spár að ræða, þá verður spennandi fyrir aðdáendur Apple að fylgjast með því hvað fyrirtækið mun bjóða upp á í næstu viku. 

Stikkorð: Apple