*

Ferðalög 21. apríl 2013

Arna Hauksdóttir: Andleg upplifun á Rauðasandi

Arna Hauksdóttir heldur mikið upp á Vestfirðina en hún heimsækir þá oft og er mest heilluð af Rauðasandi.

Lára Björg Björnsdóttir

„Síðustu árin hef ég orðið gífurlega hrifin af Vestfjörðum í heild sinni og heimsótt þá nokkuð oft, gengið á Hornstrandir og heimsótt vini sem búa þar. Sá staður sem hefur haft mest áhrif á mig á Vestfjörðum er þó Rauðisandur," segir Arna Hauksdóttir, lektor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, sem er ekki í vafa þegar Viðskiptablaðið spurði hana hver eftirlætisstaðurinn hennar úti á landsbyggðinni sé.

Arna hefur komið tvisvar á Rauðasand á síðari árum, fyrst sumarið 2009 þegar Arna og fjölskylda hennar ferðuðust um Vestfirði: "Við áttum frábæran dag á Rauðasandi í sól og hita. Við vörðum öllum deginum í sandinum, lágum í sólbaði, busluðum í sjónum, grófum okkur ofan í sandinn og horfðum yfir fjöllin og hafið."

Í seinna skiptið fór Arna á Rauðasand í september 2011: "Þá fór ég með vinkvennahópi þar sem við heimsóttum eina okkar sem býr á Patreksfirði. Aftur vörðum við degi á staðnum, heimsóttum kirkjuna og fengum innsýn inn í magnaða sögu staðarins, fengum okkur snarl og freyðivín við ströndina. Aftur voru rifnir af skór og sokkar og hlaupið í flæðarmálinu. Þennan dag ákváðum við að kveðja sumarið með virktum og þetta var svo sannarlega dagur til þess. Rauðisandur er staður þar sem ég verð fyrir einhvers konar andlegri upplifun og ég held að allir verði pínulítið betri manneskjur við að heimsækja hann. Og ekki gleyma að hlaupa á tásunum út í sjó."