*

Sport & peningar 25. nóvember 2012

Arsenal fær um 30 milljónir punda á ári frá Emirates

Leikvangur Arsenal mun áfram heita Emirates Stadium næstu 16 árin.

Enska knattspyrnuliðið Arsenal undirritaði í vikunni nýjan styrktarsamning við arabíska flugfélagið Emirates airlines.

Emirates og Arsenal skrifuðu fyrst undir styrktarsamning árið 2004 sem fól í sér að nýr leikvangur Arsenal myndi bera nafn flugfélagsins til ársins 2021. Samhliða þessu hefur sá samningur nú verið framlengdur til ársins 2028.

Samningurinn gildir til ársins 2019 en á vef BBC kemur fram að samningurinn færi Arsenal tekjur upp á um 30 milljónir Sterlingspunda á ári, eða um 210 milljónir punda á samningstímabilinu. Það þýðir að hér er um einn stærsta styrktarsamning ensku knattspyrnunnar að ræða.

Manchester Unites skrifaði fyrr á þessu ári undir samning við bandaríska bílaframleiðandann Chevrolet en sá samningur mun færa félaginu um 45 milljónir punda á ársgrundvelli til ársins 2012. Samningur Liverpool við breska bankann Standard Chartered, sem gerður var árið 2009 til fjögurra ára, færir félaginu um 20 milljónir punda á ári. Þá færir samningur Manchester City við annað arabískt flugfélag, Etihad, félaginu um 40 milljónir punda á ári en sá samningur var undirritaður í fyrra og gildir til 10 ára.

 

Stikkorð: Emirates  • Arsenal