*

Matur og vín 9. mars 2019

Árshátið lyft upp á næsta plan

Góður fordrykkur er eitt af því sem slær tóninn fyrir glæsilega árshátíð.

Sveinn Ólafur Melsted

Góður fordrykkur er eitt af því sem slær tóninn fyrir glæsilega árshátíð. Fáir þekkja það jafn vel og Orri Páll Vilhjálmsson á Apótekinu, en hann var á meðal 20 efstu barþjóna í virtri alþjóðlegri kokteilakeppni sem fram fór í Berlín undir lok síðasta árs. Viðskiptablaðið mælti sér mót við Orra Pál og fékk að bragða á kokteilum sem myndu að hans mati henta vel sem fordrykkur fyrir árshátíð og lyfta árshátíðinni upp á næsta plan.

Krækiberjabaukur

 • 3 cl Ketel one vodki
 • 1,5 cl Reykjavík Distillery Krækiberjalíkjör
 • 2 cl ferskur lime safi
 • Toppaður með feaver tree ginger beer í koparbolla

Krækiberjabaukur er ferskur, svalandi og einstaklega aðgengilegur kokteill, og ætti engan að svíkja. Kokteillinn á ættir sínar að rekja til Moscow Mule, hins sívinsæla kokteils sem hefur tröllriðið skemmtanalífinu hér á landi undanfarin ár. Þessi kokteill er skemmtileg tilbreyting frá fyrrnefndum kokteil sem kenndur er við höfuðborg Rússlands. Krækiberjalíkkjörinn gefur drykknum nýjan og skemmtilegan blæ. Drykkurinn er svo borinn fram í koparbollanum fræga, sem nú er nánast til á öðru hverju íslensku heimili.

Dillagin

 • 4,5 cl Dill tónað Tanqueray 10 gin
 • 1,5 cl mango líkjör
 • 3 cl sykur sýróp
 • 3 cl ferskur lime safi
 • Afgreiddur í coupe glasi

Dillagin er einstaklega fallegur og bragðgóður kokteill sem lætur bragðlaukana dansa af kæti. Kokteillinn gefur ekki síður mikið fyrir augað og er allur hinn glæsilegasti í útliti. Gott jafnvægi er á milli sýru, sætu og beiskju í kokteilnum og ekkert hráefnanna yfirgnæfir hin svo úr verður ein skemmtileg heild af einstöku bragði. Dillagin hentar öllum stærðum hópa og ætti að vera við flestra hæfi, enda einstaklega aðgengilegur og hressandi kokteill.

Hendricks Demise

 • 4,5 cl Hendricks gin
 • 3 cl ferskur lime safi
 • 3 cl sykur sýróp
 • Fylltur með schweppes bitter lemon
 • Hrist saman með gúrku afgreiddur í collings glasi með gúrkusneiðum og pipar

Þessi skemmtilega blanda hráefna smellur frábærlega saman sem ein heild. Það er vel þekkt að gúrka og pipar fer einstaklega vel með Hendricks gini og er þá oft brugðið á það ráð að blanda tónik við fyrrnefnd hráefni, þannig að úr verði hinn sígildi gin og tónik. Heilmikið er spunnið í Hendricks Demise, en bragð og útlit drykkjarins hittir beint í mark. Drykkurinn er kaldur, ferskur og piparinn gefur skemmtilega dýpt í bragðið.

Whisky Sour

 • 4,5 cl Bullet Bourbon
 • 1 cl triple seq
 • 3 cl ferskur lime safi
 • 3 cl sykur sýróp
 • Hristur með eggjahvítu án klaka bætt svo klaka við eftirá og hrist aftur

Whisky Sour er kokteill sem á sér langa sögu og er vel þekktur meðal almennings. Drykkurinn á uppruna sinn að rekja til 18. aldar þegar enskur sjóliðsforingi setti saman blöndu sem átti að hjálpa sjómönnum í gegnum langsiglingar og virka sem meðal gegn hinum ýmsu kvillum. Nú til dags má hins vegar færa sterk rök fyrir því að þessi sígildi og ferski drykkur henti betur á árshátíðir heldur en sem lyf fyrir sjómenn.

French 75

 • 4,5 cl Tanqueray 10 gin
 • 2 cl sykur sýróp
 • 2 cl ferskur sítrónu safi
 • Toppaður upp með kampavíni afgreiddur í flautu

Löngum hefur kampavín verið algengur fordrykkur og líklegast sá drykkur sem í flestum tilfellum verður fyrir valinu sem fordrykkur við ýmis tilefni. French 75 inniheldur einmitt kampavín og má svo sannarlega segja að drykkurinn sé skemmtileg tilbreyting frá hinu sígilda kampavíni. Kampavínið myndar ásamt öðrum hráefnum kokteilsins skemmtilega og bragðgóða heild. Skreytingin á kokteilnum, sem samanstendur af sítrónu og timjan, gefur svo frá sér góðan ilm sem gerir bragðupplifunina enn betri.

Rabbeberol Spritz

 • 3 cl Aperol
 • 1,5 cl Reykjavík Distillery rabarbara líkjör
 • Fyllt með þurru freyðivíni

Aperol Spritz er orðinn landsþekktur svaladrykkur, enda fátt sem jafnast á við að gæða sér á slíkum í þau fáu skipti sem vel viðrar hér á landi. Rabbeberol Spritz er áhugaverð útfærsla á þessum klassíska drykk og ekki hægt að segja annað en að útkoman sé einstaklega vel heppnuð. Rabarbara líkjörinn gefur drykknum ferskan blæ. Þessi ljúffengi kokteill hentar einkar vel fyrir árshátíðir og þá sérstaklega þær sem haldnar eru að sumri til.