*

Ferðalög & útivist 2. febrúar 2019

Árshátíðarferðir til Póllands vinsælar

Fyrirtækjaferðir til útlanda hafa aukist mikið á rúmu ári, bæði ódýrar og einfaldar ferðir og svo lengri á framandi slóðir.

Höskuldur Marselíusarson

Árshátíðarferðir íslenskra fyrirtækja til útlanda eru allt frá stuttri helgarferð til leiguflugs til framandi landa þar sem menningin er grandskoðuð og allt þar á milli

Stefanía Egilsdóttir verkefnastjóri hjá Eskimo Travel segir fyrirtækið, sem leggur upp með að sérsníða hverja ferð að þörfum hvers fyrirtækis, geta skipt árshátíðarferðum fyrirtækja til útlanda gróflega upp í þessa tvo flokka í verði og umfangi. Annars vegar þær sem nýta sér beint flug fram og til baka í nokkra daga, og hins vegar lengri ferðir þar sem taka þarf fleiri en eitt flug eða jafnvel leiguflug. 

„Beinu flugin eru alltaf vinsælust í fyrirtækjaferðum, enda fólk spennt fyrir því að fara í þriggja til fjögurra nátta ferðir. Sum fyrirtæki velja styttri og ódýrari ferðir, og þar er Brighton í Bretlandi klassískur valkostur, svo Dublin, Amsterdam, London, Edinborg og aðrar nálægari borgir. Fyrir svona ferð getur verðið verið um og undir 100 þúsund krónum miðað við þriggja nátta ferð með öllu, það er flug, gisting auk okkar utanumhalds. Við sjáum um allt frá skráningu, bókanir á öllu sem þarf til, þar á meðal í ýmiss konar hópefli, rútur til og frá flugvelli og svo framvegis,“ segir Stefanía sem segir ódýra valkosti hafa bæst við flóruna með komu Wizz air og annarra sérlega ódýrra lággjaldaflugfélaga. 

„Þar má nefna Riga í Lettlandi, en fjögurra nátta ferð þangað er kannski á undir 90 þúsund krónur. Svo Pólland sem er alltaf vinsælt, má þar sérstaklega nefna Gdansk sem er mjög vinsæll áfangastaður núna hjá Íslendingum, enda verðlagið þar lágt og kaupmátturinn gríðarlegur þegar út er komið. Þar er til dæmis hægt að taka leigubíla fyrir einhverja hundraðkalla.“ 

Vinna mikið með ferðir til Marakkó

Síðan eru ferðir á suðlægari slóðir, sem ekki þurfa endilega að vera svo dýrar. „Við förum mikið með hópa til lítils bæjar rétt um 25 mínútur utan við Barcelona, sem heitir Sitges, en borgin er sérlega skemmtileg, með strönd, og góðu veðri. Síðan vinnum við mikið með ferðir til Marrakesh í Marokkó, en það er flóknara að komast þangað. Við fórum nýlega út með 60 manna hóp sem þurfti að taka tengiflug sem lengir ferðalagið auðvitað, en einnig vorum við með 400 manna hóp frá tveimur fyrirtækjum þar sem við tókum tvær leiguvélar sem var skemmtilegt og öðruvísi,“ segir Stefanía en hún segir mjög misjafnt hvernig fólk vilji nýta tíma sinn í úti. 

„Í flestum tilvikum er eitt aðalárshátíðarkvöld, í góðum sal með mat og lifandi tónlist líkt og við þekkjum hérna heima. Einu sinni nýttum við til þess listasafn í Amsterdam með fiskabúrum allt í kringum salinn og í Marokkó náðum við skemmtilegri stemningu í tjöldum í eyðimörkinni með magadönsurum og ættbálkasöngvurum. Sumir vilja bara fara í sína hvora áttina þess utan, en við reynum að koma fólki saman svo það upplifi meira. Við erum alltaf með fararstjóra og bjóðum upp á alls kyns afþreyingu, frá vínsmökkun til matargerðarnámskeiða og margt fleira.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fundir & ráðstefnur, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér