*

Bílar 7. febrúar 2014

Askja frumsýnir lúxusbílinn S-Class

Nýr S-Class er stærri og rennilegri en fyrri gerð og býður upp á enn betri aksturseiginleika.

Bílaumboðið Askja frumsýnir flaggskip Mercedes-Benz, hinn nýja og glæsilega S-Class á morgun, laugardag. Þýski lúxusbílaframleiðandinn segir S-Class tæknivæddasta fólksbíl sem framleiddur hefur verið. Bíllinn er með myndavélar og ratsjárskynjara og hvort tveggja skannar veg og akreinar allt umhverfis bílinn í 360 gráður eins og augu og eyru. 

S-Class veit því þegar aðrir bílar nálgast á of miklum hraða á samsíða akreinum og varar ökumann við yfirvofandi hættu sem því getur fylgt. Með skynjurum og ratsjá veit S-Class þegar stefnir í aftanákeyrslu og getur með sjálfvirkum hætti beitt bremsubúnaði bílsins og virkjað jafnframt neyðarljósin til að aðvara aðra vegfarendur um yfirvofandi hættu. 

S-línan getur meira að segja beitt sjálfstýringu til að halda sér á réttri akrein ef ökumaður missir stjórnina við það að þreyta sígur á hann. 

Nýr S-Class er stærri og rennilegri en fyrri gerð og býður upp á enn betri aksturseiginleika. Hann er boðinn með sparneytnum BlueTEC dísilvélum, aflmiklum og skilvirkum bensínvélum og jafnframt fáanlegur í Hybrid-útfærslu, með rafmótor og bensínvél, í einkar umhverfisvænni gerð. Hann er einnig boðinn með 4MATIC aldrifskerfinu og flaggskipin eru svo S AMG 63 og S AMG 65. Frumsýningin í Öskju á morgun er kl. 12-16 og allir eru velkomnir að skoða þennan umtalaða lúxusbíl.

Íslendingar voru í aðalhlutverkinu í þessu kynningarmyndbandi á glæsikerrunni sem sjá má hér.

Stikkorð: Mercedes Benz