*

Menning & listir 22. maí 2013

Ásmundur stefnir Kristni fyrir meiðyrði

Ásmundur Ásmundsson myndlistarmaður vill milljón í miskabætur frá kollega sínum Kristni E. Hrafnssyni.

Ásmundur Ásmundsson myndlistarmaður hefur stefnt Kristni E. Hrafnssyni myndlistarmanni fyrir meiðyrði, að því er kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Stefnan kemur í kjölfar ritdeilna Kristins og Ásmundar, sem spratt af ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 8. maí síðastliðinn hafði Kristinn meðal annars eftirfarandi orð um Ásmund: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna [...].“

Í stefnu krefst Ásmundur þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk. Hann færir meðal annars þær málsástæður að ummæli Kristins séu til þess fallin að skaða starfsheiður hans og orðspor í listaheiminum. Ásmundur krefst einnig að Kristni verði gerð refsing og vill eina milljón króna í miskabætur og 150.000 króna í kostnað til birtingar dómsniðurstöðunnar í dagblaði.

Í Morgunblaðinu segir að í ummælunum hafi Kristinn líklega verið að vísa til verksins „Fallegasta bók í heimi“, höfundarverks Ásmundar Ásmundssonar, Hannesar Lárussonar og Tinnu Grétarsdóttur, sem var sýnt á sýningunni Koddu í Nýlistasafninu vorið 2011. Í því verki hafði einu eintaki bókarinnar „Flora Islandica“ eftir Eggert Pétursson verið umbreytt á mjög afgerandi hátt með því að maka blaðsíðurnar matvælum.