*

Bílar 21. júní 2012

Aston Martin frumsýnir Vanquish - myndband

Breski bílaframleiðandinn hefur endurbætt 12 strokka vélina sem skilar nú 565 hestöflum.

Breski bílaframleiðandinn Aston Martin frumsýndi í gær lúxussportbílinn Vanquish. Bíllinn hafði áður haft vinnuheitið AM310.

Bíllinn er búinn endurbættri sex lítra, V12 vél bílaframleiðandans sem skilar litlum 565 hestöflum og minni eyðslu en áður. Hljóðið frá vélinni er eins og klassísk tónlist í eyrum farþega, eins og heyra má í myndbandinu.

Vanquish er aðeins 4,1 sekúndu í hundraðið og nær 295 km/klst hámarkshráða.

Aston Martin hefur þróað nýja tækni við bílasmíði, svokallaða VH (Vertical Horizontal) hönnun og grind bílsins er úr áli. Ásamt koltrefjum léttir þetta bíllinn mikið.

Vanquish er í flokki svokallaðra grand tourer bíla (í. grand tourismo), lúxussportbíla sem ætlaðir eru í langkeyrslu.

Frumsýningin var látlaus. Bíllinn var kynntur á nýrri heimasíðu Aston Martin, astonmartin.com.

Aston Martin hefur frá upphafi lagt mikið upp úr fegurð.

Eins og margir bílaframleiðendur notast Aston Martin við LED lýsingu.

Stýri réttu megin.

Mikið er lagt upp aksturupplifun bílstjóra og farþega. Aston Martin býður upp á Bang & Olufsen hljóðkerfi.

Vanquish er Grand tourer, lúxussportbíll í langakstur. Þægindin eru eftir því.