*

Bílar 4. febrúar 2019

Aston Martin og 007

Aston Martin bílar hafa jafnan verið nátengdir James Bond í myndunum um njósnara hennar hátignar.

Róbert Róbertsson

Aston Martin bílar hafa jafnan verið nátengdir James Bond í myndunum um njósnara hennar hátignar. Þessir kraftmiklu bresku lúxussportbílar hafa oft leikið stórt hlutverk í myndunum á ýmsum aldursskeiðum.

Aston Martin DB5 er af mörgum talinn hinn eini sanni Bond bíll enda alger goðsögn alveg eins og Bond. Bíllinn kemur við sögu í alls sex myndum um 007; Goldfinger, Thunderball,  Goldeneye, Tomorrow Never Dies, Casino Royale og Skyfall. Aston Martin DB5 er því sannarlega sögulegasti bíllinn í Bond myndunum. Hann kemur fyrst við sögu í Goldfinger árið 1964 þar sem Sean Connery fór með hlutverk ofurnjósnarans. Bíllinn á síðan magnaða endurkomu í Skyfall árið 2012 þar sem Bond ekur með M alla leið frá London á æskuslóðirnar í skosku hálöndunum. Þar er hann reyndar skotinn í spað og springur í loft upp sem gerir Bond brjálaðan.

Í eltingaleik í snjó

Breski bílaframleiðandinn fékk enn og aftur sviðið þegar Bond ekur um á Aston MartinVantage í myndinni The Living Daylights með Timothy Dalton í hlutverki 007. Þar sýnir Bond snilli sýna á sportbílnum í rosalegum eltingaleik í snævi þökktu landslagi Tékkóslóvakíu.

Pierce Brosnan fékk síðan Aston Martin Vanquish í Die Another Day árið 2002 þar sem Bond ekur um á Íslandi í leit að illmenninu. Bíllinn hafði farið í gegnum Q deild bresku leyniþjónustunnar eins og flestir Bond bílarnir gera og var með sérstökum málm sem gat gert hann ósýnilegan.

Fjórir flottir í nýjustu myndinni

Í nýjustu myndinni Spectre ekur Bond um á Aston Martin DB10. Sá bíll er reyndar ekki til heldur sýnir hann framtíðarhugsun þeirra Aston Martin-manna. Bíllinn er með 4,7 lítra V8 vél sem skilar 430 hestöflum og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4,3 sekúndum. Hámarkshraðinn er 310 km/klst. Bond tekur vel á sportbílnum í svakalegum eltingaleik í Rómaborg.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér