*

Bílar 3. mars 2015

Aston Martin setur markið á kvenþjóðina

Nýr fjórhjóladrifinn rafbíll frá Aston Martin var hannaður með það í huga að höfða til kvenfólks.

Breski bílaframleiðandinn Aston Martin ætlar að breikka vörulínu sína til að snúa við neikvæðri söluþróun undanfarinna ára. Á bílasýningunni í Genf sagði forstjóri fyrirtækisins, Andy Palmer, að ætlunin væri að kynna nýja sportbíla, fjögurra dyra bíl og lítinn jeppa á næstunni, en sagði ekki nákvæmlega hvenær nýju bílarnir væru væntanlegir.

Á innan við áratug hefur fjöldi seldra bíla á ári farið úr 7.300 í um 4.000 hjá framleiðandanum.

Á sýningunni var kynntur nýr hugmyndabíll, sem fengið hefur heitið DBX, en hann er fjórhjóladrifinn rafbíll, sem hugsaður er einkum fyrir konur. Palmer sagði að við hönnun bílsins hefði hönnunarteymið haft ákveðna, ímyndaða konu í huga og fékk hún nafnið Charlotte. Hún er á fertugsaldri, svöl, efnuð og amerísk.

Sagði hann að þetta þýddi að hönnun innviða bílsins hafi verið með eilítið öðrum hætti en ef bíllinn hefði verið hannaður fyrir karlmenn. Segist hann gera ráð fyrir því að fjöldi karla muni einnig kaupa DBX bílinn, en markmiðið með bílnum sé að róa á ný mið.