*

Bílar 25. júlí 2017

Aston Martin setur rafbíl í framleiðslu

Fyrsti rafbíllinn frá Aston Martin er á leið í framleiðslu, en bíllinn fær útlit sitt frá Rapide AMR bíl fyrirtækisins.

Aston Martin hefur tilkynnt að hugmyndabíllinn RapidE muni fara í framleiðslu en um er að ræða hreinan rafbíl og þann fyrsta frá lúxusbílaframleiðandanum. Hér gæti verið kominn næsti bíll James Bond ef njósnari hennar hátignar fylgir straumnum og fær rafbíl í næstu mynd.

Aston Martin RapidE var kynntur sem hugmyndabíll árið 2015 og vakti strax mikla athygli. Hér eru engar ofuraflmiklar V 12 vélar á ferðinni eins og Aston Martin er þekkt fyrir heldur rafhlöður. Aston Martin hóf samstarf við tæknifyrirtækið LeEco um rafhlöður en því samstarfi mun hafa verið hætt.

Bíllinn mun fá útlitið að mestu frá hinum flotta Aston Martin Rapide AMR þannig að ekki er leiðum að líkjast. Sá bíll er með 6 lítra V 12 vél en þessi fær rafhlöður í staðinn. Framleiðslan á RapidE mun hefjast árið 2019 og bíllinn fer í sölu undir lok þess árs. Einungis verða framleiddir 155 RapidE bílar. Ekki eru komnar neinar frammistöðutölur ennþá frá framleiðandanum.

„Þetta er spennandi bíll sem mun marka framtíðina fyrir Aston Martin. Fyrirtækið er rúmlega aldargamalt og með þessum bíl erum við að horfa til næstu 100 ára," segir Andy Palmer, forstjóri Aston Martin.

Stikkorð: Aston Martin  • rafbíll  • lúxusbíll