*

Veiði 13. nóvember 2015

Átján laxveiðiár með 200 laxa eða meira á stöng

Sumarið 2014 var ein laxveiðiá með meira en 200 laxa á stöng en í sumar voru átján sem rufu þennan múr. Laxá á Ásum er í algjörum sérflokki.

Trausti Hafliðason

Þriðja árið í röð er ber Laxá á Ásum höfuð og herðar yfir aðrar laxveiðiár þegar laxveiði á stöng er skoðuð. Í sumar veiddust hvorki meira né minna en 898 laxar á stöng á Ásunum.

Veiðimálastofnun birti þann 9. október bráðabirgðatölur fyrir veiðisumarið 2015. Samkvæmt þeim veiddust um 74 þúsund laxar, sem þýðir að sumarið var það fjórða besta frá upphafi, eða nánar tiltekið frá árinu 1974 þegar farið var að taka saman veiðitölur.

Eins og laxveiðimenn vita kemur skýrsla Veiðimálastofnunar um laxveiðina sumarið 2015 ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur á vefsíðu Landssambands veiðifélaga, angling.is. Viðskiptablaðið hefur fengið upplýsingar um lokatölur í fimmtíu laxveiðiám. Með því  skoða þær fæst góð mynd af því hvernig veiðisumarið var.

Í sumum ám er stangarfjöldinn misjafn á milli ára. Til dæmis var veitt á 9,2 stangir í Miðfjarðará í sumar en 9,7 í fyrra, 9,7 sumarið 2013 og 9,5 sumarið 2012. Vert er að geta þess að í útreikningum Viðskiptablaðsins hefur verið tekið fullt tillit til þessa og samanburður milli ára því fullkomlega marktækur.

201 lax á stöng að meðaltali

Ástæðan fyrir því að hér er fjallað um veiði á stöng er að það er besti mælikvarðinn á laxveiði þegar verið er að bera saman laxveiðiár. Sem dæmi má nefna að í Ytri-Rangá veiddust ríflega 8.800 laxar samanborið við tæplega 1.800 í Laxá á Ásum. Í Ytri-Rangá var aftur á móti veitt á 19,5 stangir að meðaltali síðasta sumar en á Ásunum var veitt á 2 stangir. Í Ytri-Rangá veiddust því 455 laxar á stöng, sem er reyndar ótrúlega góð veiði en þó ekki jafngóð veiði og í Laxá á Ásum, þar sem 898 laxar veiddust á stöng.

Sumarið 2014 veiddust að meðaltali 89 laxar á stöng í öllum laxveiðiánum fimmtíu og aðeins ein á fór yfir 200 laxa á stöng en það var Laxá á Ásum. Síðasta sumar veiddist að meðaltali 201 lax á stöng í ánum fimmtíu og átján laxveiðiár rufu 200 laxa múrinn á stöng eða sautján fleiri en árið á undan. Enn fremur voru alls fjörutíu laxveiðiár með 100 laxa eða meira á stöng samanborið við þrettán sumarið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • laxveiði