*

Sport & peningar 27. apríl 2021

Átta ára samningur um þýska boltann

Nýr samingur NENT Group við Bundesliga International þýðir að þýski boltinn verður á Viaplay allt til ársins 2029.

NENT Group, sem rekur streymisveituna Viaplay, hefur tryggt sér sýningarréttinn á þýska boltanum til ársins 2029. Samningurinn er sá lengsti sem NENT Group og Bundesliga International, dótturfélag DFL Deutsche Fußball Liga, hafa nokkurn tímann gert. Nær samningurinn til útsendinga frá leikjum í þýsku Bundesligunni og Bundesligu 2. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá NENT Group.

Viaplay streymisveitan er nú þegar í boði hérlendis og geta áskrifendur þar því horft á þýska boltann næstu árin með leiklýsingu á íslensku. Stefnir Viaplay að því að sýna yfir 300 leiki beint á hverju leiktímabili. Samningur NENT tekur einnig til sýninga á leikjum í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen og Póllandi.

Í mars var Hjörvar Hafliðason ráðinn í nýja stöðu íþróttastjóra Viaplay Sport á Íslandi. Í tilkynningunni segir Hjörvar að mesta fjörið sé í Þýskalandi.

,,Ég held að atburðir síðustu viku með Ofurdeildina styrki þýska fótboltann til lengri tíma. Nánast öll liðin eru í eigu stuðningsmanna þar en ekki eigenda sem kannski hafa ekki áhuga á fótbolta," er haft eftir Hjörvari.