*

Veiði 14. júlí 2016

Átta hundruð laxa vika í Ytri-Rangá

Enn er rífandi gangur í laxveiðinni og nýjar veiðitölur sýna að fimm laxveiðiár eru komnar yfir þúsund laxa.

Trausti Hafliðason

Ævintýralega góð veiði var í Ytri-Rangá í síðustu viku. Frá 6. júlí til og með 13. júlí veiddust 804 laxar í ánni. Þetta þýðir að áin er komin í fyrsta sæti á lista þeirra áa sem gefið hafa mesta veiði. Í öðru sæti er Eystri-Rangá með 1.442 laxa en þar veiddust 331 lax í síðustu viku. Blanda er síðan í þriðja sæti með 1.300 laxa en þar veiddust 280 laxar í síðustu viku.

Mjög gott veður og glennusól hefur haft nokkur áhrif á laxveiði á ákveðnum landsvæðum. Sérstaklega má nefna Vesturland og Norðurland vestra. Þar hefur verið nóg af laxi á ám en komið hafa dagar þar sem hann hefur verið mjög tregur til að taka agn. Smá veðrabreytingar og sérstaklega rigningar gætu skipt sköpum fyrir ár á þessum slóðum.

Topp tíu listinn:

(Laxveiðiá - Veiði sl. viku - Heildarveiði)

  1. Ytri-Rangá        804      1.720
  2. Eystri-Rangá    331       1.442
  3. Blanda              280       1.300       
  4. Miðfjarðará       469       1.077
  5. Þverá & Kjarrá  282       1.003
  6. Norðurá            167         801
  7. Haffjarðará       93          565
  8. Langá               97          471
  9. Laxá í Aðaldal  112         378
  10. Víðidalsá           80         331

Veiðin í sumar hefur verið mjög frábrugðinn því sem hún var síðasta sumar að því leyti að hún byrjaði með miklum hvelli. Ár voru fullar af stórlaxi þegar veiðimenn hófu veiðar og síðan hefur smálaxinn smám saman verið að koma í árnar. Í fyrra þróaðist veiðin allt öðru vísi. Hún byrjaði vægast sagt rólega en tók síðan ótrúlega kipp þegar farið var að líða nokkuð fram í júlí og smálaxagöngur helltust í árnar. Þegar uppi var staðið var veiðisumarið í fyrra það fjórða besta frá því farið var að taka saman veiðitölur árið 1974.

Spennandi verður að sjá hvernig samálaxagöngur skila sér í árnar á næstu dögum og vikum.

Alla veiðitölur eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga, angling.is.

Stikkorð: Laxveiði  • stangaveiði  • lax