*

Veiði 19. maí 2019

„Átta pund ef þú ert óheppinn“

Laxveiði í Blöndu hefst 5. júní en áin hefur oft verið á meðal bestu laxveiðiáa landsins.

Trausti Hafliðason

Við upphaf laxveiðitímabilsins fær Norðurá oftast mestu athyglina, sem þýðir að Blanda hefur aðeins fallið í skuggann.

Blanda hefur oft verið á meðal bestu laxveiðiáa hér á landi. Bæði hefur veiðst mikið og síðan er hlutfall stórlaxa nokkuð hátt. Veiðin í Blöndu er hins vegar mjög háð því hvenær Blöndulón fer á yfirfall. Yfirfall er það kallað þegar vatnsyfirborðið í lóninu hefur hækkað það mikið að það fer að flæða yfir stífluna. Þegar þetta gerist litast áin töluvert, sem þýðir að aðstæður geta orðið erfiðar og áin illveiðanleg. Svipaða sögu er að segja af Jöklu (Jökulsá á Dal) en veiðin þar er töluvert háð því hvenær Hálsalón fer á yfirfall.  

Tæplega 5 þúsund laxar árið 2015

Frá aldamótum hefur veiðin í Blöndu sveiflast frá 500 löxum upp í tæplega 5.000. Á þessu tímabili hefur veiði fjórtán sinnum farið yfir 1.000 laxa og sex sinnum yfir 2.000. Á árinu 2015, sem var mjög gott laxveiðiár á Íslandi, fór veiðin upp í tæplega 5.000 laxa en árið 2003 veiddust rétt ríflega 500 laxar í Blöndu.

Á síðasta ári veiddust 870 laxar í Blöndu, sem þykir frekar dapurt þar á bæ. Þess ber að geta að veiðitölurnar í fyrra lituðust mikið af því að áin fór óvenjusnemma á yfirfall, eða strax í byrjun ágústmánaðar, sem er óalgengt.

Veiðifélagið Lax-á hefur verið með Blöndu á leigu um árabil. Ánni er skipt í fjögur svæði og samtals er veitt á 14 stangir. Veitt er á fjórar stangir á svæði I, fjórar á svæði II, þrjár á svæði III og þrjár á svæði IV. Auk fluguveiði er heimilt að veiða á maðk á tveimur veiðistöðum á svæði I. Á svæðum II og III má veiða á spún og maðk en á svæði IV má einungis veiða á flugu. Þegar áin fer á yfirfall mega veiðimenn nota flugu, maðk eða spún.

Þó að veiði hefjist í Blöndu miðvikudaginn 5. júní þá á það einungis við um svæði I. Veiði á hinum þremur svæðunum hefst 20. júní.

Oft yfir tíu punda laxar í júní

Jóhann Davíð Snorrason, markaðs- og sölustjóri hjá Lax-á, segir að Blanda sé nokkuð stór á og því sé hentugast fyrir veiðimenn að nota tvíhendur. Er hann þá að tala um svæði I til III.

„Svæði eitt er það svæði sem fólk sér þegar það ekur í gegnum Blönduós,“ segir Jóhann Davíð. „Þetta er besta svæðið í ánni enda fer alveg óhemju mikið af laxi þarna í gegn. Svæðið er nokkuð fjölbreytt. Þar eru breiður en áin mjókkar líka töluvert í Damminum, þar sem hún rennur um gil. Ef veiðimenn setja í lax á þessu svæði í júní þá geta þeir verið nokkuð vissir um að hann sé stærri en tíu pund, gæti verið átta ef þeir eru óheppnir. Sjálfur elska ég að fara þarna í byrjun veiðitímabilsins þegar náttúran er að vakna. Þetta getur líka verið krefjandi veiði því Blanda er mikið vatnsfall og laxinn hefur strauminn með sér. Vegna þess hversu áin er vatnsmikil þurfa veiðimenn að nálgast hana með gát og fara varlega þegar þeir vaða.

Veiðistaðurinn Holan er efsti staðurinn á svæði eitt og við Laugahvamm tekur svæði tvö við. Það nær það alveg að Svarthyl, sem er við ármót Svartár inni í Langadal. Þetta svæði er nokkuð ólíkt svæði eitt að því leyti að þarna rennur áin mikið um grasbakka og eyrar og mikið er um stórar og fallegar breiður.“

Refsá er nett og tær

„Svæði III teygir sig frá ármótum Svartár, inn í Blöndudal og langleiðina upp að affalli Blönduvirkjunar. Neðst á þessu svæði eru eyrar en þegar ofar er komið þá rennur áin um gljúfur í fallegri náttúru. Þó að svæði fjögur teljist með Blöndu þá er það í alveg sér á, sem nefnist Refsá. Þar er veiðin af allt öðrum toga en á svæðum eitt til þrjú. Refsá er nett og blátær og þar dugar vel að nota einhendu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: stangaveiði  • laxveiði  • Blanda