*

Bílar 14. desember 2013

Audi er skemmtilegur sportjeppi

Q3 fjórhjóladrifni sportjeppinn frá Audi sver sig í ætt þýska lúxusbílaframleiðandans. Viðskiptablaðið prufukeyrði bílinn.

Róbert Róbertsson

Heilformuð og áberandi vatnskassahlífin að framan er eiginlega ættareinkenni Audi um þessar mundir og heilt yfir eru línurnar kraftalegur á þessum netta sportjeppa. Hann er 4,29 metrar á lengd, 1,83 metrar á breidd og 1,60 metrar á hæð að meðtöldum þakbogum. Innanrýmið er laglegt eins og vænta má frá Audi. Stór aðgerðaskjárinn fyrir miðju mælaborðinu er á lömum og rennur upp þegar bíllinn er gangsettur og niður þegar drepið er á honum. Mjög flottur eiginleiki.

Góð og hljóðlát dísilvél

Ég prófaði Audi Q3 með mjög skemmtilegri dísilvél og 7 þrepa sjálfskiptingu. Um er að ræða tveggja lítra, fjögurra strokka vél sem er ein sú hljóðlátasta í dísilflokknum sem ég hef prófað. Hún skilar fínu upptaki og millihröðun á hljóðlátan og áreynslulausan hátt. Vélin skilar 177 hestöflum og koltvísýringslosunin er 156 g/ km. Q3 er prýðilegur akstursbíll, lipur og skemmtilegur í alla staði hvort sem ekið er í borg, á þjóðvegi eða á malarvegi. Hröðunin er líka fullkomlega ásættanleg miðað við sportjeppa, 8,2 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Audi gefur upp að meðaleyðslan sé 5,9 lítrar á hundraðið miðað við blandaðan akstur og þótt sú tala hækki auðvitað alltaf er ljóst að bíllinn er eyðslugrannur miðað við þessa tegund af bíl. Það kom berlega í ljós í reynsluakstrinum.

Stikkorð: Audi Q3