
Audi mun frumsýna Q6 h-tron vetnisbílinn á bílasýningunni í Detroit síðar í þessum mánuði. Þessi nýi sportjeppi kemur í kjölfar hugmyndabílsins e-tron Quattro sem vakti mikla athygli á bílasýningunni í Frankfurt í haust.
Samkvæmt breska bílatímaritinu Autocar er í aðalatriðum um sama bílinn að ræða nema þeir verða knúnir ólíkum aflrásum. Q6 h-tron verður með vetnisvél og e-tron Quattro með rafrás. Q6 e-tron verður mjög sportlegur í útliti og með coupé lagi sem er alltaf flott.
Audi er að bæta talsvert í sportjeppaflóruna því þýski lúxusbílaframleiðandinn er að undirbúa komu hins nýja smájepplings Q2 sem væntanlegur er síðar á árinu. Audi er líka að huga að framleiðslu Q4 sportjeppans sem einnig verður með coupé lagi eins og Q6.
Audi ætlar síðan að setja sinn fyrsta rafmagnsbíl á markað árið 2018 og verður hann að öllum líkindum byggður á Audi e-Tron Quattro. Ekki er enn ljóst hvenær vetnisbíllinn Q6 h-tron kemur á götuna en stefnan hjá Audi er að e-tron Quattro verði settur á markað árið 2018.