*

Bílar 9. mars 2016

Audi Q7 e-tron lentur

Tengiltvinnbíllinn Audi Q7 e-tron er lentur á Íslandi, en hann gengur bæði fyrir rafmagni og dísil.

Tengiltvinnbíllinn Audi Q7 e-tron er lentur á Íslandi og Hekla, umboðsaðili Audi á Íslandi, er byrjað að taka við pöntunum sportjeppann sem gengur bæði fyrir rafmagni og dísil. Audi Q7 e-tron státar bæði af V6 TDI vél og quattro fjórhjóladrifi. Þegar ekið er eingöngu á rafmagni er drægnin allt að 56 kílómetrar.

Sportjeppinn er aflmikill með báða aflgjafana sem skila alls 373 hestöflum og togið er 700 Nm. Það tekur Q7 e-tron 6,2 sekúndur að komast í hundraðið úr kyrrstöðu og hann eyðir aðeins 1,8 lítrum af dísil á hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Nýr Q7 e-tron er vel útbúinn og í staðalbúnaði eru meðal annars LED framljós, MMI Navigation Plus íslenskt leiðsögukerfi með MMI touch og Audi Virtual skjár í mælaborði. Skjárinn sýnir hnífskarpar myndir í hárri upplausn og hægt er að fylgjast með stöðu aflmælis, drægni og orkuflæðis kerfisins.

Audi Q7 e-tron býður upp á framúrskarandi margmiðlunarviðmót og tengimöguleika við Google Android Auto og Apple CarPlay. Aðstoðarkerfi ökumanns eru mörg og má þar nefna að hann getur lagt sjálfur í stæði, séð um að bakka með kerru og keyrt sjálfur í umferðaröngþveiti. Enginn annar fjöldaframleiddur bíll bíður upp á fleiri aðstoðarkerfi sem valkost.

Með nýrri hleðslutækni tekur það aðeins tvo og hálfan tíma að fullhlaða bílinn ef notað er iðnaðartengi. Hitastýrikerfi með innbyggðri varmadælu hefur verið sérþróað fyrir Q7 tengiltvinnbíla. Með Audi connect viðbótinni er hægt að tengjast við bílinn og stýra miðstöð, skoða stöðu á rafhlöðu, auk fjölda annarra aðgerða.

Stikkorð: Audi  • Bílar  • Q7 e-tron  • Tvinnbíl