*

Veiði 28. janúar 2017

Auðjöfrar loka laxveiðiám

Færst hefur í aukana að erlendir auðmenn leigi laxveiðiár og hafi þær alfarið fyrir sig sjálfa.

Trausti Hafliðason

Haraldur Eiríksson, sölu- og markaðsstjóri hjá Hreggnasa, sem leigir meðal annars Grímsá, Laxá í Dölum, Laxá í Kjós og Svalbarðsá, segir veiðileyfasalan hafi gengið alveg ágætlega.

„Laxá í Dölum og Svalbarðsá eru uppseldar og Grímsá svo gott sem uppseld," segir Haraldur.

Meirihluti þeirra erlendu veiðimanna sem sækja Ísland heim eru frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Styrking krónunnar hefur haft töluverð áhrif á þessa veiðimenn því frá áramótum 2016 og til dagsins í dag hefur krónan styrkst um 25% gagnvart pundi og 12% gagnvart dollar.

„Gengismálin hafa verið að stríða okkur töluvert," segir Haraldur. „Það sem hefur hjálpað okkur töluvert er að þegar við framlengdum okkar leigusamninga við veiðifélögin þá gerðum við í leiðinni samninga við okkar tryggustu viðskiptavini. Þeir skuldbundu sig til að kaupa leyfi næstu þrjú árin. Með þessu lögðum við ákveðinn grunn í okkar rekstur. Þetta hefur gert okkur það kleift að hafa verðskrána að mestu óbreytta á milli ára."

Útlendingar draga saman seglin

Haraldur segir að á síðustu árum hafi útlenskum veiðimönnum fjölgað töluvert á Íslandi en nú sé þessi þróun að ganga til baka.

„Ástæðan er sú að þeir útlendingar sem bættust við voru kannski ekki jafn fjársterkir og þeir sem hafa stundað veiði hér um langt árabil. Þessi erlendu viðskiptavinir sem bættust við eru því viðkvæmari fyrir gengissveiflum og hafa nú dregið saman seglin. Þessir veiðimenn  ýttu að hluta til Íslendingum til hliðar því þeir voru að kaupa veiðileyfi á jaðartímum, ódýrari veiðileyfi en þeir fjársterku, sem vilja bara veiða á besta tíma."

Lokað á íslenska veiðimenn

Haraldur segir að þó finna megi fyrir aukinni eftirspurn frá Íslendingum þá sé sú eftirspurn örlítið villandi af því leyti að þetta séu ekki nýir veiðimenn.

„Ástæðan hugnast ekki öllum. Það eru ár að hverfa af almennum markaði. Þetta eru laxveiðiár sem eru keyptar upp af erlendum auðjöfrum sem vilja bara hafa þær fyrir sig og sína vini. Dæmi um þetta er Álftá á Mýrum, Búðardalsá, Dunká og smá ár á norðausturhorninu. Þessum ám hefur verið lokað fyrir íslenskum  veiðimenn. Þetta þýðir að kannski 200 til 300 veiðimenn sem hafa stundað þessar ár koma út á markaðinn að leita að leyfum í aðrar ár.  Þetta skekkir umræðuna um að eftirspurn sé að aukast. Hún er ekki að aukast heldur er búið að taka nokkrar ár af markaðnum."

Orðspor laxveiðinnar

Haraldur segir að laxveiðin hafi því miður fengið þann stimpil á sig að vera dýrt sport. Auðvitað sé hægt að kaupa dýr veiðileyfi alveg eins og það sé hægt að kaupa dýrar vörur. Aftur á móti sé fullt af venjulegu fólki að stunda stangaveiði og það kaupi bara ódýrari veiðileyfi. Hann segir að þetta orðspor hafi leitt til þess að fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki veigri sér við því að kaupa veiðileyfi. Þau fari til dæmis frekar með viðskiptavini í fótboltaferðir til Evrópu.

„Þetta finnst mér slæm þróun því hvað er betra en að fara með viðskiptavini í veiði og leyfa þeim að kynnast íslenskri náttúru í kyrrð og ró. Laxveiðin á við ákveðinn ímyndarvanda að etja. Laxeldismenn hafa í sinni baráttu fyrir sjókvíaeldi hamrað mjög á því að laxveiðin sé bara sport fyrir útvalda. Ég sakna þess mjög að stangaveiðifélögin, með allt sitt bakland, alla sína félagsmenn, spyrni ekki á móti og láti í sér heyra."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.