*

Sport & peningar 11. júlí 2012

Auðkýfingar kaupa Nottingham Forest

Vilja koma félaginu aftur í fremstu röð en það sigraði ensku deildina og Evrópukeppnina undir stjórn Brian Clough á áttunda áratugnum.

Hin auðuga Al-Hasawi fjölskylda frá Kúvæt hefur keypt hið sögufræga knattspyrnufélag Nottingham Forest. Fjöskyldan keypti á dögunum hlut sem Nigel Doughty átti í félaginu. Doughty lést í febrúar síðastliðnum en aðstandendur hans nú selt hlutinn. Þetta kemur fram í frétt The Guardian um málið.

Nottingham Forest leikur nú í næst efstu deild í Englandi en félagið hefur einu sinni unnið ensku deildina og tvisvar orðið Evrópumeistarar. Allir þessir titlar komu á árunum 1977-1980 þegar liðið lék undir stjórn Brian Clough.

Hinir nýju eigendur hafa sagt að þeir líti á það sem heiður og forréttindi að taka yfir stjórn á þessu sögufræga félagi og þeirri arfleifð sem Nigel Doughty skyldi eftir sig. Enn fremur ætla þeir sér að koma félaginu aftur á þann stall sem félagið var eitt sinn á.