*

Hitt og þetta 1. júlí 2005

Auglýsingasamningar skila mestu tekjunum

Nú stendur keppnin í Wimbledon sem hæst og hafa vinsældir mótsins aldrei verið meiri. Þessi aukni áhugi hefur leitt af sér hærri tekjur til mótshaldara jafnt sem keppenda. Ungar stjörnur, Maria Sharapova og Andrew Murray, eru meðal keppenda og er reiknað með að auðæfin streymi til þeirra gangi allt upp hjá þeim.

Hefur útlitið og er frábær tennislekari

Sharapova var nánast óþekkt þegar hún sigraði á Wimbledon mótinu á síðasti ári en nú eru mun meiri væntingar gerðar til þessarar 18 ára rússnesku stúlku, sem hefur titil að verja. Aðstæður þessarar fögru stúlku hafa aldeilis breyst en hún hefur unnið sér inn um 1,8 milljónir punda (215 milljónir íslenskra króna) í verðlaunafé á árinu. Þrátt fyrir að hafa fengið dágóðar tekjur í verðlaunafé og vera orðin önnur á heimslistanum, fær hún stærsta hluta tekna sinna af auglýsingatekjunum en áætlað er að hún hafi fengið um 5 milljónir punda af auglýsingasamningum á síðastliðnu ári. Hún er með auglýsingasamninga við Colgate-Palmolive, Motorola og Canon, svo fáir séu nefndir en í haust mun hún setja sitt eigið ilmvatn á markað. Það varð frægt þegar verðlaunaafhendingunni var seinkað í fyrra þar sem Sharapova var að reyna að ná símasambandi við móður sína. Í ár ætti hún ekki að vera í vandræðum að ná sambandi þar sem Motorola er einn af hennar stærstu bakhjörlum.

"Maria Sharapova hefur útlitið með sér og er frábær tennislekari," sagði McCowen, markaðstjóri enska tennissambandsins. "Hún nær athygli fólks".

Vonarstjörnur

Nú er Tim Henman dottinn úr keppni og telja margir að ferli hans sé að ljúka og er tennissambandið þegar farið að leita eftir einhverjum í hans stað.

Stærsta vonarstjarna tennissambandsins er Skotinn Andrew Murray. Hann sigraði á Opna bandaríska unglingamótinu á síðasta ári. Murray sem er aðeins 18 ára gamall spilar nú í fyrsta skipti í fullorðinsflokki á þessu móti en hann hefur staðið sig mjög vel það sem af er mótinu. Ken Meyerson, sem var umboðsmaður Andre Agassi og Andy Roddick, segir að Murray gæti unnið sér inn um 60 milljónir punda verði hann í topp 30 á næstu tveimur árum.

"Ætli ég sé ekki nýja vonarstjarna Breta í tennis og það er bara gaman að því," sagði Murry sem var í 312. sæti á heimslistanum fyrir mótið.

Spánverjar binda hinsvegar miklar vonir við hinn 19 ára Rafael Nadal, sem vann Opna franska í síðasta mánuði. Nadal, sem er jafn þekktur fyrir gott útlit eins og tennis, er talinn efnilegur kandídat þetta árið á Wimbledon. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir að keppa alltaf í hvítum hnébuxum en Nadal hefur samþykkt að láta þær á Wimbledon tennissafnið að móti loknu. Þar munu þær hanga ásamt sigurbúningum Williams systra og nærfötum Önnu Kournikovu.

Miklar tekjur af smásölu

McCowen, markaðstjóri enska tennissambandsins, áætlar að selja vörur í þeim sjö verslunum sem eru á vellinum fyrir 4 milljónir punda sem er jafnvirði 475 milljóna íslenskra króna. Þetta eru föt, íþróttavörur og minjagripir sem eru merktir mótinu.

Salan á vellinum er þó einungis 20 prósent af þeim Wimbledon vörum sem seljast í heiminum. Mesta salan fer í gegnum einkaleyfi í Norður Ameríku og Austurlöndum fjær. Þrjár nýjar verslanir hafa opnað síðan á mótinu á síðasta ári en áætlað er að umfang tekna af smásölu á Wimbledon hafi tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum. Mótshaldarar áætlað að salan muni hinsvegar aukast frekar þegar flaggskipsverslunin verður tilbúin árið 2008 en sambandið reiknar með tekjum upp á 10 milljónir punda af smásölu á mótinu árið 2010.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is