*

Bílar 12. júní 2015

Aukin sala hjá Mercedes-Benz

Þýski bílaframleiðandinn MercedesöBenz seldi 12,8% fleiri bíla í maí en á sama tíma í fyrra.

Mercedes-Benz heldur áfram að gera það gott en þýski lúxusbílaframleiðandinn seldi alls 151.135 bifreiðar í maí sl. sem er 12,8% meiri sala en á sama tíma í fyrra.

Alls seldust 728.809 Mercedes-Benz bílar á heimsvísu fyrstu fimm mánuðum ársins sem er 13,6% söluaukning borið saman við sama tímabil í fyrra. Í Evrópu setti lúxusbílaframleiðandinn sölumet og hefur aldrei áður selt jafnmarga bíla á 5 mánaða tímabili. Alls fengu 316.362 viðskiptavinir nýja Mercedes-Benz bíla afhenta á fyrstu mánuðum ársins í Evrópu og jókst sala bílaframleiðandans þar um 10,5% á þessum tíma miðað við sama tímabil í fyrra. Mercedes-Benz setti sölumet í Bretlandi, Svíþjóð og Portúgal á þessum fyrstu fimm mánuðum ársins. Þá jókst salan enn frekar í Bandaríkjunum, Kanada, Kína og Japan.

„Þetta eru vissulega mjög góðar fréttir fyrir Mercedes-Benz. Það hefur verið sérstaklega mikil sala í hinum nýja C-Class sem og sportjeppunum. Það eru spennandi tímar framundan og síðar í þessum mánuði verður nýr GLC sportjeppi frumsýndur í Þýskalandi. Forveri hans er GLK sem er söluhæsti sportjeppi Mercedes-Benz þannig að við erum bjartsýn á að halda áfram þessum góða árangri,” segir Ola Källenius, stjórnarmaður hjá Daimler AG, sem er framleiðandi Mercedes-Benz.

Hér á Íslandi hefur Mercedes-Benz verið söluhæsta lúxusbílamerkið síðustu ár. Fyrstu 5 mánuði ársins 2015 voru skráðir 161 nýir Mercedes-Benz fólksbílar sem er um það bil 57% söluaukning frá fyrra ári. Markaðshlutdeild þýska framleiðandans var um 2,6% á þessu tímabili sem er sú hæsta frá upphafi og sama hlutdeild og merkið náði á árinu 2014 hér á landi.

„Þessi aukna sala bæði á heimsvísu, í Evrópu og hér heima kemur ekki á óvart þar sem Mercedes-Benz hefur verið að koma fram með fjölmarga nýja og spennandi bíla á undanförnum misserum. Við hjá Öskju erum að sjálfsögðu hæstánægð með gott gengi Mercedes-Benz,” segir Ásgrímur Helgi Einarsson, sölustjóri Mercedes-Benz hjá Bílaumboðinu Öskju.