*

Menning & listir 6. nóvember 2012

Aumingjarnir í Fellunum

Vakta-pabbinn Ragnar Bragason leikstýrir Gullregni í Borgarleikhúsinu. Þetta er bráðfyndinn harmleikur um fólk í Fellahverfi.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Alltaf er spenna í loftinu þegar nýtt íslenskt leikverk fer á fjalirnar. Þetta átti sérstaklega við þegar fréttist af því að Ragnar Bragason hefði fært sig úr kulda, trekki og hosseríi kvikmyndagerðar inn í hlýjuna í Borgarleikhúsinu. Þar var afraksturinn frumsýndur fyrir helgi. Þetta er framúrskarandi fyndið verk sem tekur óvænta u-beygju.

Gullregn fjallar um Indíönu Jónsdóttur, öryrkja á sextugsaldri í bleikum jogginggalla sem býr í blokk í Fellahverfinu í Breiðholti, sem er í meira en fullu starfi við það að tryggja sér bætur og mergsjúga Félagsþjónustuna. Hún er í fullu fæði hjá Fjölskylduhjálp og fer einu sinni á ári með syni sínum til Costa del Sol með hópi psóríasis-sjúklinga, reyndar off season. Höfuðstöðvarnar eru Lazyboy-stólinn í stofunni og þaðan gerir hún út, með Diet Coke og sígó á kantinum - ekki of langt frá sjónvarpsfjarstýringunni. Hún hreyfir sig helst ekki nema ef hún neyðist til að skakklappast á hækju að dyrunum til að opna fyrir starfsmönnum hins opinbera eða ná í aðra Diet úr ísskápnum. Þeir sem næst henni standa eru með eigin lykla. Gullregn á svölunum á hug hennar og hjarta. Plöntunni veitir hún alla þá ást sem hún getur veitt nokkurri lifandi veru. Það fær því eðlilega á hana þegar starfsmaður Umhverfisráðuneytisins tilkynnir henni að samkvæmt nýrri reglugerð verði hún að fjarlægja tréð.

Indíana er ekki viðkunnanleg manneskja. Hún snýst um rassgatið á sjálfri sér. Þegar aðrir finna ekki til með henni fær hún asmakast, ósýnileg vefjagigtin snýr upp á hana og mígrenið skrúfast upp. Sjálf hefur hún ekki meðaumkun með neinu nema Gullregningu, segir íslensku jólin þau bestu í heimi, hefur sannfært sig um að útlendingar séu svikahrappar upp til hópa og þolir ekkert sem raskar heimsmynd sinni. Sigrún Edda Björnsdóttur fer vel með hlutverkið. Það er ekki nokkur leið að hafa samúð með Indíönu. Það sama má segja um Gullregnið, þá eiturplöntu, þótt fallegt sé.

Allir á bótum

En áfram af leiðindaherfunni Indíönu og hennar nánasta liði. Samúð áhorfenda hvílir öll á greyjunum sem þurfa að umgangast hana. Jóhanna, vinkona Indíönu í stigaganginum sem virðist eini raunverulegi öryrkinn í verkinu, er algjör tuska sem þrátt fyrir stöðuga verki leggst undir marineraðan sjómann þá sjaldan hann kemur í land og lætur allt yfir sig ganga. Hún léttir sér lundina með þvílíkri bjartsýni að jaðrar við geðveiki. Sjálfsmiðuð skítalund Indíönu er hins vegar á slíku kaliberi að hún hreinlega nauðgar þessari andlega brotnu konu. Halldóra Geirharðsdóttir fer frábærlega með hlutverkið þótt á stundum hafi virst sem hún hafi átt erfitt með að halda aftur af því hvað henni fannst þetta skemmtilegt.

Svo er það Unnar, sonur Indíönu. Hún hefur alið hann upp í þeirri trú að hann geti ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Þetta er jú fyrirburi sem kom í heiminn með naflastrenginn þrívafinn utan um hálsinn. Fyrirburar geta verið veikburða fyrstu dagana eins og allir vita. En í þeim heimi sem Indíana hrærist í er Unnar enn veikburða þrátt fyrir að vera langt genginn í fertugt og þjáður af öllu því sem skilar bótum frá hinum opinbera. Síðustu tægjur naflastrengsins hanga enn á milli mæðgnanna enda Unnar pikkfastur undir hæl móður sinnar og svo meðvirkur að ljóst er hvert stefnir.  Hallgrímur Ólafsson er góður í hlutverki Unnars og fylgja áhorfendur honum í gegnum skin og skúrir í lífi hans.

Aðrir leikarar eru sömuleiðis vel valdir. Brynhildur Guðjónsdóttir er trúverðug sem pólsk kærasta Unnars; Hanna María Karlsdóttir er flott sem heilabiluð móðir Indíönu (jafnvel þótt hlutverkið bjóði ekki á mikið fyrir málleysingja). Þá er Halldór Gylfason góður í þeim hlutverkum sem honum eru úthlutuð.

Yndislegt smekkleysi

Það er svo sem óþarfi að fara út í hvert smáatriði hér. Leikmyndin í Gullregni er trúverðug og virtist talsvert lagt í smáatriðin. Út um stofugluga íbúðarinnar blasir Gullregnið við áhorfendum. Mynd af blokkum í bakgrunninum veitir áhorfendum tilfinningu fyrir því að þeir séu að guða á glugga í íbúð í Fellunum. Mér fannst í raun engu líkara en ég væri kominn heim þegar útidyrahurðin að íbúð Indíönu var opnuð svo sá inn á stigapallinn, betrekkið á veggjunum var skelfilegt.

Það sama á við um íbúð Indíönu, stofuna, eldhúsið og þaðan sem sér inn á bað og svefnherbergisgang. Meira að segja hallærislegar pilsklæddar dúkkurnar sem ferðalangar kaupa á Spáni þóttu mér stórskemmtilegar ofan á skápum á settinu. Þá spilltu umhverfishljóðin ekki fyrir, svo sem hljóðin  í nágrönnum og bílum.

Ekki má gleyma tónlist Mugison. Hún er ekkert í takt við hans fyrri verk en góð og passar vel inn í Gullregn.

Föðurlaust fólk

Ragnar Bragason rær á svipuð mið í Gullregni og í fyrri verkum, svo sem  í Vaktaseríunni, þ.e.a.s. samneyti barna og foreldra. Þar eru feður fjarri góðu gamni. Unnar er eins og Georg Bjarnfreðarson alinn upp af einstæðri móður. Rétt eins og Bjarnfreður reyndi af hörku að ala á andstyggð Georgs fyrir auðvaldsöflum samfélagsins gerir Indíana allt til þess að Unnar viðhaldi sér sem öryrkja. Að sjálfsögðu er afrakstur af takmarkalausri en öfugsnúinni ást í samræmi við það sem sáð var.

Hnotskurn

Gullregn er bráðfyndið verk sem fitlar við tilfinningarnar. Ekki skemmir fyrir að það er svo sneisafullt af fordómum, að leikhúsgestir veltust um af hlátri.

Hér að neðan má sjá myndir úr sýningunni.

Höfundur: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. jon@vb.is