*

Bílar 3. nóvember 2016

Austantjalds Skódinn Alfreð í uppáhaldi

„Við keyptum hann á þrjátíu þúsund krónur og greiddum með mánaðarlegum afborgunum beint til seljanda, enda var þetta löngu fyrir tíma bílalána.“

Róbert Róbertsson

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, hefur mikinn áhuga á öruggum, greiðum og góðum samgöngum, enda fylgir það starfinu hennar. Hér rifjar hún upp nokkrar skemmtilegar staðreyndir um bílana hennar og eftirminnilegar bílferðir auk þess sem hún viðurkennir að maðurinn hennar, Helgi Hjörvar, sé versti bílstjóri sem hún þekki.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

Fyrsti bíllinn sem við hjónakornin festum kaup á var sannkallað uppáhald svo lengi sem hann lifði. Þetta var gamla austantjaldsgerðin af Skoda en gegndi nafninu Alfreð og var sá eini sem við, þá tvítugt kærustupar, höfðum mögulega efni á að kaupa og reka. Við keyptum hann á þrjátíu þúsund krónur og greiddum með mánaðarlegum afborgunum beint til seljanda, enda var þetta löngu fyrir tíma bílalána. Okkur fannst við sannkallaðir stórlaxar að vera komin á okkar eigin Alfreð og vissum fátt betra en fara á rúntinn, bæði innanbæjar og utan.

Alfreð er þó í besta falli hægt að lýsa sem dyntóttum. Þannig vildi hann oft ekki fara í gang fyrr en eftir dálítið kjass og strokur, en hann brást okkur þó aldrei í alvörunni fyrr en á þeirri ögurstundu þegar við ætluðum að selja hann. Þá hafði hann verið nokkuð stöðugur um hríð en harðneitaði að hreyfa sig fyrir nýju kaupendurna svo salan gekk til baka þarna á hlaðinu.

Tilraunir til endurlífgunar skiluðu ekki árangri og var andláti Alfreðs lýst yfir samdægurs. Þrátt fyrir að hafa verið svolítill gallagripur eigum við ennþá hlýjar og rómantískar minningar um hann Alfreð.

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

Hin unaðslega tilfinning fyrsta ökutímans að vera treyst til að vera næstum raunverulegur þátttakandi í umferðinni er afar eftirminnileg. Um leið man ég að mér fannst þetta hrollvekjandi háskaleikur af hálfu ökukennarans að ætlast til þess að ég – sextán ára barnið – settist undir stýri og æki af stað innan um saklausa borgara. Annað eftirminnilegt skipti var í London mörgum árum síðar, þegar við tókum leigubíl nokkuð langa leið. Bílstjórinn var ungur ofurhugi sem vildi greinilega ekki sóa einni mínútu af lífi sínu, því hann ók á næstum 200 km hraða lengstan hluta leiðarinnar og tók ekki nokkrum sönsum. Þegar ljóst var að mótbárur dugðu ekkert var eina ráðið að halda sér fast og loka augunum þó hvorugt hefði komið að gagni ef illa hefði farið. Þetta er í eina skiptið sem éghef raunverulega verið viss um að mitt síðasta væri upprunnið og aldrei orðið fegnari að leiðarlokum.

Nánar má lesa um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.