*

Sport & peningar 22. apríl 2019

Ávallt óslípaður demantur

Við stofnun Viðskiptablaðsins var Gianluigi Lentini dýrasti leikmaður heims. Bílslys setti strik í ferilinn.

Jóhann Óli Eiðsson

Sumarið 1992 stóð ítalska knattspyrnustórveldið AC Milan frammi fyrir lúxusvandamáli. Tímabilið áður hafði félagið farið taplaust í gegnum Seríu A og lokið keppni með átta stiga forskot á Juventus þótt enn væru aðeins tvö stig fyrir sigur. Markmiðið Juventus var skýrt, að velta Milan úr sessi. Markmið þeirra síðarnefndu var jafn skýrt, að tryggja með öllum ráðum að það gerðist ekki.

Á þessum tíma var Milan í eigu Silvio Berlusconi, síðar forsætisráðherra Ítalíu, en hann hafði eignast liðið árið 1986 til að forða því frá gjaldþroti. Arrigo Sacchi var ráðinn sem þjálfari og liðstyrkur barst frá Hollandi í formi þríeykisins Ruud Gullit, Marco van Basten og Frank Rijkaard. Fyrir í liðinu var hryggjarstykki ítalska landsliðsins, Paolo Maldini, Franco Baresi, Alessandro Costacurta og Roberto Donandoni. Árið 1991 tók Fabio Capello við af Sacchi og með smávægilegum breytingum á formúlu fyrirrennara síns fór liðið ósigrað í gegnum tímabilið.

Frá sjötta áratug síðustu aldar og fram til aldamóta voru ítölsk lið iðin við að slá metið yfir dýrasta leikmann knattspyrnusögunnar. Fyrrnefndur Gullit tók þann titil af argentínska snillingnum Diego Maradona er hann færðist til Milan. Andsvar Juventus fólst í að sækja Roberto Baggio frá Fiorentina árið 1990. Metið féll hins vegar í þrígang sumarið 1992.

Kaupæði risanna um sumarið

Í upphafi sumars var tilkynnt um að franski landsliðsframherjinn Jean-Pierre Papin hefði gengið  til liðs við Milan frá Marseille. Kaupverð var tíu milljónir punda, andvirði rúmra 24 milljóna punda á verðlagi dagsins í dag. Það met stóð þó ekki lengi því fáum dögum síðar skrifaði Gianluga Vialli undir hjá Juventus. Félagið greiddi fyrri vinnuveitanda hans, Sampdoria, tólf milljónir punda.

Það að fá Jean-Pierre Papin var þó ekki nóg fyrir Fabio Capello og eigendur liðsins. Félagið hafði nefnilega augastað á 23 ára vængmanni Torino, Gianluigi Lentini, sem nýverið hafði rutt sér leið í ítalska landsliðið.

Á þessum tíma var Lentini lýst sem „óslípuðum demanti“. Hann hafði leikið alla sína tíð með Torino, að undanskildu tímabilinu 1988-89 er hann var á láni hjá Ancona, og vakið verðskuldaða athygli. Lentini gat leikið á hvorum vængnum sem var og ótrúlegur hraði hans, knattleikni og jafnvægi gerði hann illviðráðanlegan.

„Minn helsti galli er að geta oft ekki losað mig við boltann á réttum tíma og þurfa alltaf að taka aukasnertingu á boltann. Ég held að þetta sé ákvörðun sem ungir leikmenn taka oft ómeðvitað til að sýna og sanna hvað þeir virkilega geta,“ sagði Lentini eitt sinn í viðtali við La Stampa.

Táragas og mótmælendur

Bæði Milan og Juventus sáu þarna tækifæri til að slípa demantinn til. Af hálfu Torino var áhugi Juventus bæði kærkominn og illa þokkaður. Eigendur liðsins vildu alls ekki missa uppalda stjörnuleikmanninn Lentini til erkifjendanna, risans í Torinoborg. Áhugi liðsins gerði það hins vegar að verkum að verðmiðinn á vængmanninum rauk upp úr öllu valdi.

Þegar áhugi risaliðanna spurðist út brugðust stuðningsmenn Torino ókvæða við og mótmæltu bæði fyrir utan heimili forseta liðsins sem og höfuðstöðvar þess. Kalla þurfti út óeirðalögreglu sem beitti táragasi til að dreifa mannfjöldanum. Mótmælin höfðu lítið að segja en skömmu síðar var Lentini orðinn leikmaður AC Milan og Torino þrettán milljónum punda ríkara. Gianluca Vialli ríkti því aðeins í örfáa daga sem dýrasti leikmaður heims.

Capello hafði landað sínum manni og var sáttur þótt það hefði kostað skilding eða tvo. Kaupin áttu hins vegar eftir að valda fjaðrafoki á Ítalíu. Í opinberu málgagni Páfagarðs, L‘Osservatore Romano, voru verðmiði og launakjör leikmannsins kölluð „móðgun gegn reisn vinnunnar“. Sjálfur sagði Lentini í viðtali að það hefði verið launatékkinn sem gerði útslagið. Var hann af mörgum úthrópaður málaliði fyrir vikið.

 

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið.