*

Menning & listir 29. apríl 2019

Avengers þénaði 150 milljarða um helgina

Nýjasta Avengers myndin þénaði 1,2 milljarða Bandaríkjadala á opnunarhelginni og tvöfaldaði með því heimsmetið.

Tekjur af miðasölu nýjustu ofurhetjumyndar Disney, Avengers: Endgame námu 1,2 milljörðum Bandaríkjadala – tæpum 150 milljörðum króna – nú um helgina, sem var opnunarhelgi myndarinnar.

Myndin mölbraut öll met fyrir opnunarhelgi, en gamla metið var um helmingi lægra, og tilheyrði fyrirrennaranum, Avengers: Infinity War frá því í fyrra. Sé horft á einstaka markaði braut hún met í 44 mörkuðum.

Eftirspurn eftir myndinni er sögð vera slík að sum kvikmyndahús hafa ákveðið að sýna hana allan sólarhringinn næstu vikuna til að anna henni.

Disney keypti Marvel fyrir áratug síðan, en frá 2008 hefur fyrirtækið gefið út 22 ofurhetjumyndir sem samtals hafa skilað Disney um 20 milljörðum dollara.

Umfjöllun Financial Times.