*

Hitt og þetta 23. nóvember 2019

Bækur á leslistann í skammdeginu

Fyrir áhugamenn um samfélags og efnahagsmál kennir margra grasa í nýjustu bókatíðindum.

Höskuldur Marselíusarson

Bókaútgáfa fer á fullt í aðdraganda jólanna, en eftir stutt yfirlit yfir Bókatíðindin sem komu út um miðjan mánuðinn sést að þar kennir ýmissa grasa fyrir áhugafólk um samfélags- og efnahagsmál.

  • Fjórða iðnbyltingin

Ólafur Andri Ragnarsson, tölvunarfræðingur og aðjúnkt við HR, hefur fjallað um fjórðu iðnbyltinguna svokölluðu og áhrif hennar á vinnuumhverfi, nám og kennslu, í námskeiði sínu Ný tækni við skólann, en nú gefur hann út bók um málið og þær miklu breytingar sem framundan eru. Segir hann tækni framtíðar allt í senn heillandi, ógnvænlega og sveipaða óvissu, en meðal þess sem stefni í er að róbótar taki yfir störf, gervigreind leysi ráðgjafa af hólmi og drónar ferji fólk og varning milli staða. Í bókinni fer Ólafur Andri einnig yfir iðnbyltingar fyrri tíma og reynir að meta út frá því og öðru við hverju megi búast nú. Ætti bókin að vera sérlega áhugaverða fyrir alla sem heillast af tæknisögu, sjálfkeyrandi bílum, drónum, Netflix, Uber, örlögum Nokia, framgangi Apple, nýjungum hjá Google og svo framvegis.

  • Í víglínu íslenskra fjármála

Sagan af landinu sem breytti kreppu og vesæld í velsæld, með augum Norðmannsins í Seðlabanka Íslands. Á haustdögum kom út bók Sveins Haralds Øygard, sem árið 2009 fékk óvænt boð um að gerast seðlabankastjóri á Íslandi til bráðabirgða, sem erlendir fjölmiðlar sögðu þá versta seðlabankastjórastarf á Vesturlöndum. Í bókinni beitir Svein glöggu gestsauga til að varpa nýju sjónarhorni á einhverja örlagaríkustu daga í sögu landsins. Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun október taldi hann reynslu úr aðgerðahópi í Noregi eftir hrun í landinu á tíunda áratugnum hafa verið ástæðan fyrir því að hann fékk þá símtal sem hann átti ekki von á. „Viltu verða seðlabankastjóri á Íslandi,“ var spurt á hinum endanum og án umhugsunar svaraði Svein Harald: Já, já, af hverju ekki. En síðan runnu á hann tvær grímur stuttu áður en hann hélt upp í vélina til Íslands þegar hann hitti ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins í Noregi sem þráspurði hann hvort hann væri tilbúinn, og vísaði í hvernig Íslendingar hjuggu höfuðið hverjir af öðrum í Íslendingasögunum. „Ólíkt mér þá var ráðuneytisstjórinn vel lesinn í Íslendingasögunum og þekkti sögu landsins. Ég þóttist við öllu búinn og fullyrti að ég væri til í slaginn. Tveimur mánuðum seinna vissi ég betur.“

  • Lög og landsmál

Dómarinn Arnar Þór Jónsson við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur vakið athygli fyrir að gera sig gildandi í þjóðfélagsumræðum síðustu missera, þar sem hann bæði tók á sinn hátt á orkupakkaumræðunni sérstaklega, fullveldi landsins gagnvart Evrópusambandinu og þeirri gagnrýni sem hann fékk fyrir að tjá sig, verandi starfandi dómari.. Gefur hann nú út greinasafn sitt Lög og landsmál þar sem hann hvetur lesendur til umhugsunar um samfélagslegar rætur og tilgang laganna. Segir hann umfjöllun um lög og lögfræði ekki verða slitin úr samhengi við umhverfið og samtímann, og vonast hann eftir því að greinarnar þjóni tilgangi sem innlegg í almenna og vonandi lifandi umræðu um lögin í heimspekilegu pólítísku og siðrænu samhengi. Árið 2016 gaf hann út bókina Lög og samfélag þar sem hann ræddi einnig um lagahugtakið og hagsmuni almennra borgara og samfélagsins og minnti á að lög og lagaframkvæmd mætti ekki vera alfarið á forræði lögfræðinga.

  • Halldór Ásgrímsson: ævisaga

Ævisaga Halldórs Ásgrímssonar eftir Guðjón Friðriksson kom út í ár, en hann var áratugum saman einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins. Hann gegndi formennsku í Framsóknarflokknum í 12 ár, sjávarútvegsráðherra, utanríkisráðherra lengur en nokkur annar og lauk ferlinum með tveimur árum í forsætisráðherrastólnum. Í bókinni rekur Guðjón sögu Halldórs, segir frá uppvexti kaupfélagsstjórasonarins á Vopnafirði og Höfn í Hornafirði, sjómennsku og öðrum störfum, ráðningu sem lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands 25 ára að aldri, þótt hann hefði aldrei tekið stúdentspróf , stjórnmálaferli, baráttu- og áhugamálum, sigrum og ósigrum. Sagt er ítarlega frá deilum um kvótakerfi, úthafsveiðar, hvalveiðar, Kárahnjúkavirkjun, Íraksstríðið og fjölda annarra mála. Vinir og samstarfsmenn Halldórs leggja orð í belg en einnig pólitískir andstæðingar og aðrir sem höfðu kynni af Halldóri og störfum hans á löngum og viðburðaríkum ferli þar sem hann naut trausts langt út fyrir eigin flokk.

  • 2052 – Svipmyndir úr framtíðinni

Í þessu smásagnasafni reyna 25 mismunandi höfundar að varpa hver sínu ljósi á hvernig samfélagið á Íslandi gæti þróast, til góðs eða ills á næstu 30 árum, en safnað var til bókaútgáfunnar á Karolina Fund. Eiga allar sögurnar það sameiginlegt að gerast árið 2052, en sumar draga dökka mynd af framtíðinni, okkur sem víti til varnaðar og innblástur til góðra verka. Höfundarnir eru ekki endilega allir þekktir sem slíkir heldur fengu þeir Hjörtur Smárason og Jósep Gíslason sem standa að bókinni, fólk úr ýmsum geirum samfélagsins sem býr yfir mismunandi reynslu, þekkingu og sjónarhornum til liðs við sig. Lengi vel hafði þjóðin skýr markmið sem hún stefndi sem einn maður að, sjálfstæði landsins milli 1850 og 1944, síðan uppbygging orkuauðlinda, sjávarútvegsins og útvíkkun landhelgi Íslands. Upp úr aldamótunum síðustu var það fjármálakerfið sem skyndilega átti að vera framtíðarsýnin en beið algjört skipsbrot í hruninu 2008. Í hinum mikla vexti ferðaþjónustunnar frá hruni, hafi svo allir verið uppteknir við að uppskera, en nú sé markmiðið að finna háleit plön fyrir Ísland eftir þrjátíu ár.

  • Hernaðarlist meistara Sun/ Sun Tzu: Hernaðarlistin

Eftir að hafa ekki áður komið út á íslensku virðist sem hin aldagamla bók kínverska hershöfðingjans Sun Tzu um hernaðarlistina hafi verið gefin út af tveimur aðilum fyrir þessi jól. Annars vegar af Háskólaútgáfunni í þýðingu Geirs Sigurðssonar og ritstjórn Rebekku Þráinsdóttur undir nafninu Hernaðarlist meistara Sun, en þau fengu 300 þúsund króna styrk til verkefnisins frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Hins vegar gefur bókaútgáfan Ugla, sem gefið hefur út ritröð fræðilegs efnis um málefni sem brenna á nútímasamfélögum, bókina út undir titlinum Hernaðarlistin eftir Sun Tzu, en hún er í þýðingu Brynjars Arnarssonar. Þó að bókin sé 2.500 ára gömul hefur vísdómur hennar um hernaðartækni og kænskubrögð verið nýtt af forystumönnum á öllum sviðum þjóðfélagsins í hvers kyns deilum og valdabaráttu og hernaðartæknin verið yfirfærð á svið viðskipta, stjórnunar og ýmiss konar leiðtogafræði og álitin skyldulesning allra sem ætla að gera sig gildandi í mannlegu samfélagi.

  • Sapiens: Mannkynssaga í stuttu máli

Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari hefur slegið í gegn með bókum sínum um mannkynsöguna og lærdóminn af henni fyrir 21. öldina, en margföld metsölubók hans, Sapiens: Mannkynssaga í stuttu máli, kom loksins út á íslensku í sumar. Hefur hún þar með komið út í 49 löndum og selst í meira en 5 milljónum eintaka, en í bókinni nýtir hann líffræði, mannfræði, fornleifafræði og umhverfisfræði til að sýna hvernig sagan hefur mótað manninn og maðurinn söguna. Fer hann meðal annars yfir hvernig nútímamaðurinn varð ofan á í baráttu við að minnsta kosti sex aðrar tegundir manna sem við kepptum við um yfirráð yfir jörðinni í árdaga mannkyns. Einnig hvernig á því stóð að fólk hópaði sig saman og stofnaði borgir og ríki, mótuðum hugmyndir um hið guðdómlega, þjóðerni, mannréttindi, gjaldmiðla, lög og kenningar. Einnig veltir hann fyrir sér hvernig við urðum þrælar skriffinnsku, skipulags og neysluhyggju, og hvert við stefnum og hver framtíð mannkyns verði.

  • Stöngin út: Ævintýralegt líf Halldórs Einarssonar í Henson

Blaðamaðurinn Magnús Guðmundsson skrifar sögu Halldórs Einarssonar, oft kenndan við fyrirtæki sitt Henson, þar sem hann dregur upp einlæga og ævintýrilega mynd af einstökum manni. Halldór er auðvitað fyrir löngu orðinn þjóðþekktur, sem knattspyrnumaður, íþróttafrömuður, frumkvöðull og framleiðandi íþróttafatnaðar. Halldór er sjálfur sagnamaður af Guðs náð og því frásögnin hlaðin skemmtilegum sögum af sigrum og ósigrum, þar sem hann fer yfir litríkan feril sem einkennst hefur af miklum sveiflum og stórkostlegum ævintýrum í viðskiptum og knattspyrnu, utan lands og innan. Atburðirnir sem Halldór lýsir eru af öllu tagi, sumt er kostulegt, annað á alvarlegri nótum. Hér segir meðal annars frá lífsháska á Melavellinum og morðum og mannránum í villta austrinu eftir fall Berlínarmúrsins, saklausum hrekkjum sem gátu undið illilega upp á sig og sterkasta jólasveini í heimi. Og persónugalleríið er litríkt. Hér stíga á svið kappar á borð við George Best, Jón Pál Sigmarsson og Rod Stewart að ógleymdum aldavini Halldórs, Hermanni Gunnarssyni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.