*

Menning & listir 11. febrúar 2017

Bækurnar sem stóðu upp úr 2016

Heiðar Guðjónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson, Dögg Hjaltalín og Andrés Jónsson sögðu hvaða bækur höfðu verið eftirminnilegastar á leslistanum á síðasta ári.

Viðskiptablaðið hafði áhuga á því að heyra hvaða bækur hefðu staðið upp úr hjá áhrifafólki í íslensku samfélagi á síðasta ári og hafði það samband við nokkra vel valda aðila.

Þau Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Dögg Hjaltalín, eigandi bókaútgáfunnar Sölku, og Andrés Jónsson, annar eigenda Góðra samskipta, sögðu Viðskiptablaðinu frá því hvaða bækur stóðu upp úr leslistanum hjá þeim árið 2016.

Viðskipti aðall víkinga, frekar en rán og ofbeldi

Heiðar Guðjónsson nefndi fyrst bók Peters Frankopan um silkileiðina, eða The Silk Road á ensku. „Ég heyrði fyrst af silkileiðinni í sögutímum um Marco Polo í grunnskóla og hvernig hann „fann“ leiðina til Asíu,“ segir Heiðar um þessa fyrrum mikilvægustu verslunarleið heims sem hnignaði síðar með framþróun í sjóflutningum.

„Nú eru gríðarlegar breytingar að fara í gang sem mun aftur auka mikilvægi þeirra landa sem leiðin liggur um. Saga Evrópu hljómar líkt og íbúar álfunnar hafi rutt brautina á flestum sviðum og hvernig heimurinn hafi hverfst í kringum Evrópu. Það er fjarri sanni.“

Heiðar las einnig innlendar sögubækur og stóð bókin Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson upp úr sem fjallar um og dregur saman þá vitneskju sem til er um landnámsmanninn Geirmund Heljarskinn, sem þó engin Íslendingasaga er til um.

„Ég gat ekki beðið eftir íslensku útgáfunni og las því fyrst Den Svarte Viking sem kom út 2013. Ég var svolítið hissa hvað tafði íslensku útgáfuna, en loks þegar hún kom þá er hún ekki aðeins þýðing heldur sérútgáfa,“ segir Heiðar.

„Bókin er einstaklega læsileg. Hún fjallar á tilgerðarlausan hátt um hvernig Íslandssagan sem okkur er kennd í skóla er mikil einföldun. Í bókinni er með trúverðugum hætti fjallað um hvernig viðskipti voru að- all víkinga, frekar en rán og ofbeldi.“

Tvær kjarnakonur stóðu upp úr

Þær tvær bækur sem stóðu upp úr hjá Dögg Hjaltalín á síðasta ári voru Þriðja miðið eftir Arianna Huffington og This Changes Everything eftir Naome Klein.

„Þriðja miðið er besta stjórnendabók sem ég hef lesið og sú sem talar mest við mig í nútíma vinnuumhverfi með öllu því áreiti sem því fylgir,“ segir Dögg.

„Bókin fjallar um hvernig við eigum að endurmeta velgengni með því að skilgreina hana frá því hver við erum og hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu.

Las barna- og teiknimyndasögur

Halldór Benjamín Þorbergsson nefnir bæði eldri og nýrri bækur sem stóðu upp úr hjá honum á síðasta ári. Las hann meðal annars bók Astrid Lindgren, Bróðir minn Ljónshjarta á ný, en í þetta sinn fyrir syni sína.

„Hún er jafnvel enn skemmtilegri en mig minnti,“ segir Halldór. „Flaskaði reyndar á byrjuninni – og skildi ekkert þegar hlustendur mínir voru farnir að kjökra. Kveikti um síðir – og hraðspólaði beint yfir í Nangijala – án þess að fara of djúpt í ástæður þeirra vistaskipta.“

Halldór segist hafa mjög gaman af að lesa samtímasögu og las hann því bók Björns Jóns Bragasonar, Gjaldeyriseftirlit, Vald án eftirlits. „Áhugaverð bók í reyfarastíl sem varpar nýju ljósi á það sem fór fram bak við luktar dyr Seðlabankans,“ segir Halldór

Besta bókin um krísustjórnun

Andrés Jónsson taldi upp nokkrar bækur sem vöktu athygli hans á síðasta ári.

Auk þeirra nefnir Andrés tvær bækur sem hann notar við kennslu á MBA kúrsi í starfsframastjórnun, önnur heitir The Startup of You eftir Reid Hoffmann, sem lýsir hvernig eigi að stýra starfsframa sínum eins og maður stýrir sprotafyrirtæki, og hin sem heitir When the Headline Is You eftir Jeff Ansell sem hann segir þá bestu sem hann hafi rekist á um krísustjórnun og krísuviðbrögð.

„Orðsporskrísur felldu fjölmarga toppa í íslensku atvinnulífi og stjórnmálum á síðasta ári og meðvitundin um orðsporsáhættu hefur líklega aldrei verið meiri.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.