*

Bílar 15. september 2016

Baleno snýr aftur

Suzuki Baleno er mættur aftur til leiks eftir margra ára hlé.

Baleno kemur nú fram á sjónarsviðið í fimm dyra stallbaksútfærslu en var áður fyrr framleiddur sem fjögurra dyra sedan og fimm dyra langbakur. Með Baleno hefur Suzuki komið fram með annan skemmtilegan stallbak en fyrir er hinn vel heppnaði Suzuki Swift sem er með vinsælustu smábílunum á markaðnum. Baleno er talsvert frábrugðinn Swift í hönnun og er straumlínulagaðri en Swift.

Baleno er í stærðarflokknum fyrir ofan Swift og má segja að hann sé minni millistærðarbíll. Hönnuðum Suzuki hefur tekist prýðilega til með þessum nýja bíl. Hönnunin að utan er ágætlega vel heppnuð heilt yfir. Innanrýmið er laglegt og nokkuð sportlegt með 7 tommu snertiskjá fyrir miðju þar sem hægt er að framkvæma ýmsar margmiðlunaraðgerðir.

Lítil en spræk bensínvél

Suzuki kynnir nú í fyrsta sinn Baleno með MILD HYBRID vél, ásamt tveimur öðrum nýjum, sparneytnum bensínvélum, 1,0 BOOSTERJET og 1250 DUAL JET. Reynsluakstursbíllinn var með 1,0 lítra BOSTERJET vél sem er með forþjöppu og beinskiptur. Slagrými vélarinnar er ekki mikið en það verður að segjast eins og að akstursgetan og aflið kemur á óvart og virðist eins og vélin sé stærri en raunin er. Vélin skilar 112 hestöflum. Þessi vél býður upp á sparneytni í þokkabót.

Eyðslan er 4,5 lítrar á hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Bíllinn er mjög léttur, aðeins 850 kíló, og því sprækur í hreyfingum og lætur vel að stjórn. Það er skemmtilegt að aka honum beinskiptum og hann rýkur áfram með góðri aðstoð forþjöppunnar. Það er helst að maður sakni þess að hafa ekki sjötta gírinn í beinskiptingunni. Aksturseiginleikarnir eru heilt yfir mjög fínir og sportlegir og stýringin er nokkuð góð. Það helsta sem má finna að er að það er svolítið veghljóð sem berst inn í hann, sérstaklega á talsverðum hraða.

Stikkorð: Suzuki  • bílar  • Baleno