*

Matur og vín 2. ágúst 2018

Bandaríkjamenn snúa baki við bjór

Bandaríkjamenn panta minna af bjór á bar en áður og leita meira í léttvín og kokteila á kostnað bjórsins.

Í áraraðir hefur bjór verið vinsælasta val Bandaríkjamanna þegar kemur að vali á drykk á bar. Nú hefur orðið breyting á þessu og Bandaríkjamenn eru orðnir líklegri til að panta sér léttvínsglas eða kokteil á kostnað bjórsins. WSJ greinir frá þessu.

Samkvæmt Beer Institute, sem eru samtök bjórframleiðenda, varð bjór í 49,7% tilfella fyrir valinu hjá fólki þegar það pantaði sér drykk á bar, en á tíunda áratugnum varð bjór fyrir valinu í 60,8% tilfella. 

Bjórframleiðandinn Budweiser hefur svo gefið það út að á meðal ungra áfengisneytenda sem stunda viðskipti við fyrirtækið, drekki 43% þeirra bjór, en árið 2006 var hlutfallið ívið hærra, eða 65%.

Því er ljóst að val Bandaríkjamanna á drykkjum á bar virðist vera að breytast og fróðlegt verður að sjá hvernig bjórframleiðendur bregðast við þessari minnkandi neyslu á bjór.

Stikkorð: léttvín  • bjór  • kokteilar