*

Sport & peningar 14. mars 2015

Bandarískir fjárfestingasjóðir vilja kaupa Crystal Palace

Fjárfestingasjóðirnir Apollo Global Management og Blackstone eru á meðal fjárfesta sem íhuga kaup á fótboltafélaginu Crystal Palace.

Hópur bandarískra fjárfesta sem telja m.a. fjárfestingasjóðina Apollo Global Management og Blackstone eru nú á lokametrum þess að taka yfir breska fótboltafélagið Crystal Palace. Financial Times greinir frá þessu.

Samkvæmt heimildarmönnum FT er von á yfirtökusamningi í næstu viku en enn á eftir að ganga frá formsatriðum hans. Forsvarsmenn Crystal Palace hafa neitað að tjá sig um yfirtökuna. Fjárfestahópurinn er leiddur af einum stofnanda Apollo, Josh Harris og David Blitzer frá framkvæmdastjórn Blackstone. 

Greint var frá því í síðasta mánuði að Enska úrvalsdeildin hefur selt sjónvarpsréttindi fyrir leiki deildarinnar til Sky og BT fyrir samtals 5,14 milljarða breskra punda - jafngildi um 1.000 milljarða íslenskra króna. 

Um metfjárhæð er að ræða og er hún 71% hærri en þegar réttindin voru boðin út síðast, en þá nam fjárhæðin rúmum 3 milljörðum punda. Samið var við Sky, sem keypti fimm af sjö sjónvarpspökkum á 4,2 milljarða punda, og BT, sem keypti hina tvo á 960 milljónir punda. Samningarnir gilda frá 2016 til 2019.

Stikkorð: Crystal Palace