*

Menning & listir 24. nóvember 2018

Bankareikningurinn glaður um jólin

Salka Sól Eyfeld stendur í ströngu á aðventunni.

Sindri Freysson

Salka Sól Eyfeld, söng- og leikkona, treður upp í desember á jólatónleikum rapparans Gauta Þeys sem kallast Jülevenner, en þar er lögð áhersla á að skemmta áhorfendum með fjölbreyttari hætti en eingöngu ómþýðum jólalögum. Hún syngur einnig á jólatónleikunum Norðurljósin á Akureyri, sem sagðir eru bæði léttir og hátíðlegir, og þar að auki á hvorki meira né minna en á þrettán jólahlaðborðum. 

Á sama tíma er hún að leika aðalhlutverkið í Ronju ræningjadóttur allar helgar. Desember verður því annasamur tími fyrir hana eins og fleiri tónlistarmenn. Hún hlær þegar spurt er hvort þessi skorpuvinna í jólavertíðinni hafi hugsanlega breytt viðhorfi hennar til hátíðarinnar til hins verra. „Bankareikningurinn er alltaf voða glaður um jólin en skapið er misjafnt. Ég hef aldrei verið mikið jólabarn, þannig að þegar ég fór að taka að mér jólagigg þurfti ég aðeins að fara að leggjast yfir jólalög. Við söngvarar byrjum að hlusta á jólalög í september, þannig að maður er kannski kominn með nett ógeð í desember þegar skriðan fer af stað. En þetta smitast samt inn og ég er orðin meira jólabarn ef eitthvað er og ákaflega glöð þegar ég sest niður við matarborðið á aðfangadag og allt er tilbúið. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og kvarta ekki þó svo að ég hafi kannski ekki tíma til að baka sautján sortir af smákökum og skreyta allt hátt og lágt heima. Þetta er vinnutörn og miklu skemmtilegra heldur en þegar maður var í námi og jólin tengdust einhvern veginn alltaf prófum og einhverjum leiðindum.“

Fjölskylduskemmtun fyrir jólaandann

„Gauti hefur mjög skemmtilega grallaralega nálgun á jólatónleikahefðina og er líka sniðugur að fá með sér rétta fólkið til að auka skemmtigildið sem mest,“ segir Salka Sól. „Ég var með í fyrra og sé eflaust um jólalegasta hlutann af tónleikunum, en núna í ár bættist Sigga Beinteins í hópinn þannig að það er aðeins búið að styrkja þann þátt í stemningunni. Í fyrra tóku rappararnir sín lög en hoppuðu kannski upp á jólakassa til að bæta við fjörið. Jólatónleikar hérlendis voru lengi vel svo gríðarlega hátíðleg fyrirbæri, getum nefnt Frostrósir sem dæmi, og ég held að ákveðinn hluti gesta hafi kannski viljað fá aðeins léttari tón og alvörulausari nálgun. En sumir vilja auðvitað ennþá hátíðlegu stemninguna og það er líka ótal margt í boði fyrir þá, til dæmis eru margir fallegir tónleikar í kirkjum landsins. Jólin eru hátíð barnanna og fjölskyldur koma saman, og sjálfri finnst mér fjölskylduskemmtun eins og Gauti býður upp á algjörlega fullkomin fyrir jólaandann.“