*

Sport & peningar 3. júní 2014

Bardagabúr fyrir Gunnar Nelson komið til landsins

Gunnar Nelson segir að keppnisbúrið gerbreyti allri æfingaaðstöðu fyrir sig og raunar alla Mjölnismenn.

30 feta MMA keppnisbúr kom til landsins á vegum TVG-Zimsen í gær og verður sett upp í Mjölniskastalanum við Seljaveg í dag.

,,Þetta er í fyrsta sinn sem við fáum svona keppnisbúr til landsins og það er eðlilega mikil ánægja með þetta. Keppnisbúrið gerbreytir allri æfingaaðstöðu fyrir mig og raunar alla Mjölnismenn. Þetta gerir Mjölni einnig kleift að bjóða erlendum bardagamönnum að halda æfingabúðir á Íslandi í aðdraganda bardaga,“ segir Gunnar Nelson í tilkynningu.

Gunnar bendir á að á morgun byrji einmitt æfingabúðirnar fyrir UFC Dublin keppnina sem haldin verður 19. júlí. Þetta búr er mjög mikilvægt fyrir æfingaaðstöðuna og gerir mönnum kleift að æfa við alvöru aðstæður.

Von er á hátt í tuttugu erlendum bardagamönnum til landsins í júní sem munu æfa í Mjölni. Þeir munu að sjálfsögðu æfa í nýja keppnisbúrinu ásamt Gunnari og fleiri Mjölnismönnum. 

Stikkorð: Gunnar Nelson