*

Sport & peningar 12. mars 2018

Barðist um titil með 8 daga fyrirvara

Íslenska hnefaleikakonan Valgerður Guðsteinsdóttir beið sinn fyrsta ósigur í atvinnukeppni um helgina

Eina atvinnukona Íslendinga í hnefaleikum, Valgerður Guðsteinsdóttir, beið sinn fyrsta ósigur á atvinnuferlinum í Osló um helgina þegar henni bauðst þátttaka á vegum WBC hnefaleikasambandins, sem er eitt af þremur stóru samböndunum í boxheiminum. 

Mætti Valgerður hinni norsku Katharinu Thanderz í aðalbardaga laugardagskvöldsins þar sem að veði var alþjóðlegt léttvigtarbelti WBC hnefaleikasambandsins. Þar áður hafði Valgerður borið sigurorð á hinni tékknesku Dominika Novotá í október síðastliðnum.

Bardaginn við norðmanninn var mjög jafn og skemmtilegur. Báðar sóttu á víxl og fyrir óþjálfað augað þá var ógjörningur að sjá á milli hvor hefði haft yfirhöndina. Þegar loturnar 8 voru liðnar þá var það dómaranna að skera úr um hver sigurvegarinn væri, og þeirra mat var einróma að sú norska hefði gert nóg til að tryggja sér sigurinn og í leiðinni heimsmeistarabeltið. 

Skammur fyrirvari á bardaganum

Upphaflega hafði aðalbardagi kvöldsins að vera á milli Katarínu og áskorandans Toussy L´Hadji frá Frakklandi en sú síðarnefnda neyddist til að draga sig úr keppni og hófst þá leit að andstæðingi. Þáði Valgerður boðið strax og það bauðst, með því skilyrði þó að það færi fram í léttvigt sem er undir 61 kílógrammi, en þar er laust verðlaunabelti WBC í alþjóðakeppni.

„Ég þarf að gefa mér smá tíma til að meðtaka þetta allt. Þetta var svo stór stund og þetta kom upp með svo stuttum fyrirvara,“ sagði Valgerður eftir bardagann. 

„Ég var með alla mína einbeitingu á því að vera eins tilbúin eins og hægt væri og það er ekki fyrr en núna að ég er að átta mig á því að ég var að berjast á stórum viðburði um stóran titil. Auðvitað er svekkjandi að hafa ekki unnið, en ég veit að ég gerði mitt besta og það voru alveg augnablik þarna inni í hringnum þar sem upplifði skýrt að ég hafði yfirhöndina. 

Það var virkilega gaman að mæta svona öflugum andstæðing og finna að ég átti fullt erindi í hana. Að finna að allt það sem ég hef fórnað og neitað mér um til að elta drauminn minn um að vera atvinnuboxari hefur verið til einhvers. Ég vona innilega að þessi frammistaða hafi hjálpað mér við að klifra áfram upp metorðastigann. Helst væri ég til í að berjast sem fyrst aftur."

Eftir bardagann sagði Katharina að hún bæri mikla virðingu fyrir andstæðingi sínum. „Hún tók þennan bardaga með svo skömmum fyrirvara og hún stóð sig svo vel. Hún er alvöru bardagakona."

Guðjón Vilhelm, umboðsmaður Valgerðar kallaði Valgerði hetju. „Hún tók þennan bardaga með 8 daga fyrirvara og var hársbreidd frá því að sigra,“ segir Guðjón.„Ég get lofað ykkur að Katharina liggur núna á bæn og vonar að hún þurfi ekki að mæta Valgerði aftur. Því ef Valgerður fær 6 vikur í undirbúning til að mæta henni þá er á hreinu að hún mun klára hana. 

Ég mun leggja inn beiðni um “re-match” strax, en hvernig sem er þá er ljóst að Valgerður var verðugur fulltrúi Íslands og við getum öll verið stolt af hennar frammistöðu. Hún er þvílíkt hörkutól þessi stelpa og það verður gaman að sjá hvað gerist næst hjá henni.” 

Barist var um næst stærsta titilinn

Pólitíkin í titlum í hnefaleikunum er ansi flókin. Til útskýringar þá er alþjóðlegi titillinn, „International title” næststærsta beltið sem hægt er að keppa um hjá WBC. Eina beltið sem er stærra er „World title” og það er hið óumdeilanlega heimsmeistarabelti. 

Sú sem heldur á hinum alþjóðlega titli, svokölluðum „International title” er hinsvegar komin ansi nálægt heimsmeistaratitlinum og telst klárlega hæf sem áskorandi á ríkjandi heimsmeistara. Þetta er því risavaxið tækifæri sem Valgerðar bíður. Það er þó ljóst að andstæðingur hennar verður ekkert lamb að leika við.

Mikil hefð hefur myndast í Noregi fyrir öflugum hnefaleikakonum. Á toppnum þar trjónir Cecilia Brækhus sem er ríkjandi heimsmeistari í 5 hnefaleikasamböndum. Cecila er súperstjarna í heimalandi sínu, sem og í hnefaleikaheiminum öllum. 

Hún er ósigruð í 32 atvinnubardögum og hefur jafnframt afar góða og markaðsvæna ímynd. Í kjölfar Ceciliu hafa fjölmargar norskar hnefaleikakonur ruðst fram á sjónarsviðið og er Katarina Thanderz sú sem er næst í röðinni á eftir henni. Hún er 29 ára gömul og ósigruð í sínum 7 atvinnubardögum til þessa.