*

Tölvur & tækni 14. júní 2012

Barist um ástarlénið

Google er í hópi sex fyrirtækja sem sækjast nú eftir að kaupa lénið .love. Apple sótti um .apple en flestir vilja eignast .app.

Google sækist nú, ásamt sex öðrum fyrirtækjum, eftir léninu .love. Óvíst er þó hvort Google verður af ósk sinni. Búist er við að nokkur hundruð umsókna um ný lén verði samþykktar en 1.930 umsóknir bárust

Með léni (e. domain) er hér átt við stafina sem fylgja á eftir punktinum í lok netslóða. Bandaríska stofnunin Icann er eins konar nafnanefnd internetsins og fer yfir umsóknir um leyfi fyrir nýjum lénum. Umsóknirnar voru birtar í dag og er fjallað um þær í vefútgáfu The New York Times.

Fjöldi léna eru þegar í notkun en það eru einna helst svokölluð landslén. Dæmi um slík lén er .is og .uk. Aðein fáein lén eru í boði sem ekki tengjast löndum. Dæmi um slík lén eru .net og .org.

Nú hafa margir hins vegar haldið því fram að þau heiti sem í boði eru dugi ekki lengur til að mæta óskum internetnotenda um fjölbreytni í heimasíðunöfnum. Því hefur nú verið opnað fyrir umsóknir um ný lén og mun Icann meta umsóknir eftir ströngum reglum.

Google eyddi tæpum 18,7 milljónum bandaríkjadala í yfir 100 umsóknir. Meðal þess sem internetrisinn sótti um er .google, .youtube., .goog og .plus. Google var eina fyrirtækið sem sótti um .fly, .new og .eat.

Google mun hins vegar þurfa að berjast við barnavöruframleiðandann Johnson & Johnson um .baby og Microsoft um .doc og .live. Þá sóttu Google og Amazon í sautján tilfellum um sömu lénin en þar á meðal voru lénin .wow, .search, .free, .you og .play.

Apple sótti aðeins um lénið .apple en mörgum kom á óvart að engin umsókn barst frá Facebook.

Vinsælasta lénið var .app en 13 umsækjendur vonast eftir að hreppa það. Apple var þó ekki þar á meðal eins og búast hefði mátt við. 

Stikkorð: Google  • Lén