*

Menning & listir 17. ágúst 2020

BBC fjallar um sundferðir Íslendinga

Breski fjölmiðillinn fjallar ítarlega um sundmenningu Íslendinga og þeirri eftirvæntingu sem ríkti er laugarnar voru opnaðar á ný.

Sveinn Ólafur Melsted

Sundgleði Íslendinga er umfjöllunarefni greinar sem fjölmiðillinn BBC birti á vefsvæði sínu fyrr í dag. Líkt og landsmönnum er enn í fersku minni neyddust sundlaugar um land allt til að loka í kjölfar þess að COVID-19 faraldurinn tók sér bólfestu hér á landi. Sundlaugarnar voru lokaðar í um tvo mánuði en opnuðu á ný um miðjan maí, sundunnendum til mikillar gleði.

Sú staðreynd að mikill fjöldi fólks lagði leið sína í Laugardalslaug og beið í langri röð til að fara í miðnætursund um leið og sundlaugum var heimilt að opna á ný, vekur athygli greinarhöfundar BBC.

Sundlaug í hverjum bæ, óháð stærð

Greinarhöfundur BBC segir að þetta endurspegli dálæti þjóðarinnar á almenningssundlaugum sínum. Hver einasti bær landsins, sama hversu smár hann sé, haldi úti eigin sundlaug. Flestar laugarnar séu staðsettar utandyra og upphitaðar með jarðvarma. Í sundlaugunum megi iðulega finna heita potta, auk þess sem þær séu opnar allt árið um kring, sem geri landsmönnum kleift að heimsækja laugina í sinni heimabyggð daglega, sama hvernig viðrar.

Vinnur að gerð kvikmyndar um sundmenningu þjóðarinnar

Í grein BBC er rætt við kvikmyndagerðarmanninn Jón Karl Helgason, sem vinnur að heimildarmynd um íslenskar sundlaugar og sundmenningu þjóðarinnar. Áætlað er að frumsýna myndina í október nk., en kveikjan að því að Jón Karl ákvað að gera umrædda heimildarmynd er sú að sem barn fór hann daglega ásamt föður sínum í sund í hverfislaugina.

Jón Karl segir frá því að margir Íslendingar, óháð aldri, venji komur sínar daglega í sundlaugar og í laugunum megi finna þverskurð af íslensku þjóðinni. Sumir nýti sundferðina til að leggja stund á líkamsrækt, á meðan aðrir nýti ferðina til að slaka á og spjalla um daginn og veginn í heitum pottum.

Við gerð myndarinnar heimsótti Jón Karl um 100 sundlaugar um allt land, en nálgast má ítarlega grein BBC um íslenskar sundlaugar, og menninguna í kringum þær, hér.

Stikkorð: Ísland  • BBC  • sundlaugar