*

Menning & listir 6. nóvember 2012

Beðið eftir Sigur Rós

Blaðamaður Viðskiptablaðsins var orðinn fótafúinn þegar Sigur Rós sló í fyrsta lag á tónleikum á sunnudag - langt á eftir áætlun.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Hljómsveitin Sigur Rós sló síðasta tóninn í tónlistarveisluna Iceland Airwaves á sunnudagskvöld. Bandið hefur ekki stigið á stokk hér á landi í fjögur ár eða síðan á því ágæta ári 2008 þegar fjármálaheimurinn snerist á hvolf. Tónlist hljómsveitarinnar hefði verið falleg undir þeirra dramatík.

Tónleikar Sigur Rósar hafa verið heljarinnar sjónræn upplifun síðasta áratuginn. Að sama skapi og umfangið hefur stækkað hefur þeim fækkað húsunum sem geta rúmað tónleika Sigur Rósar. Nýja Laugardalshöllin hentar prýðilega fyrir slík risagigg. Sigur Rós er ofursveit Íslands, súperband nútímans sem hefur haldið sinni stöðu alveg frá því hljómsveitin gaf út Ágætis byrjun fyrir um þrettán árum.

Eftirvænting lá því eðlilega í loftinu fyrir tónleikana á sunnudag. Margir voru mættir tímanlega þegar Nýja Laugardalshöllin opnaði klukkan sex á tónleikakvöldinu mikla. Straumur fólks leið viðstöðulítið frá anddyri inn í tónleikasalinn. Þar var kósí stemning og vinaleg, fólk sem virtist frá tvítugu til rúmlega þrítugs bæði stóð og sat, drakk bjór og hafði gaman af, sumir í hrókasamræðum. Við vorum tvö, þræddum okkur á milli fólks og tipluðum yfir stöku fótleggi á teppalögðu gólfinu.

OASIS - METALLICA!

Sviðið var stórt en hulið tjaldi. Einkennileg píanótónlist með síendurteknum stefum ómuðu úr hátalarakerfinu. Erlend tungumál hljómuðu úr öllum áttum. Og þá hófst biðin. Hvalahljóð eins og úr djúpsævi tóku við af píanóinu. Stöku sinnum sást hreyfing á sviðinu. Salurinn tók andköf, einhverjir klöppuðu og nokkrir blístruðu. Fagnaðarlætin fjöruðu út þegar áhorfendur áttuðu sig á því að þetta voru rótarar með blá og rauð höfuðljós. Þegar klukkuvísar liðu yfir sjö voru enn hvalahljóð í boði hússins. Stöku höfuðljós liðu blikkuðu annað slagið á sviðinu.

Klukkan hálf átta var fólk farið að líta á klukkuna og velta fyrir sér hvað væri í gangi. Hvar var hljómsveitin? Barnapían sat heima og útlit fyrir að geimið yrði klukkutíma á eftir áætlun.

Ein stelpa við hlið okkar var orðin undrandi. Hún hrópaði: OASIS! Önnur á bak við okkur svaraði kallinu: METALLICA!

Þetta var orðið svolítið vandræðalegt fannst mér þegar á leið. Búkhljóð hvalanna orðin leiðigjörn að mér fannst. Inngangur að því sem koma átti var alltof langur.

Og þá gerðist eitthvað á sviðinu. Nokkrir tónleikagesta brustu af eftirvæntingu og klöppuðu. Fáeinir görguðu je...je.... út í loftið. En svo sló þögn á hópinn þegar þetta reyndust rauðu og bláu ljósin aftur á ferðinni. Nú var slegið nokkrum sinnum á trommur, tekið í bassann og boga rennt yfir rafmagnsgítar. Sándtékk. Engu var líkara en settinu hafi verið riggað upp hálftíma fyrir opnun hússins og verið að fara yfir hljóminn í síðasta sinn, tékka á málinu. Ég var að drepast í löppunum í skóm með hörðum botni og steig stundum í annan fót til að hvíla hinn.

Tónleikarnir sem síðar sprungu út

Og þá gerðist það. Án nokkurs fyrirvara um tíu mínútur yfir átta sprakk salurinn í fagnaðarlátum, djúpsjávarprumpinu hafði verið skipt út fyrir skruðninga og brothætta píanótóna án þess að ég hafði tekið eftir því, reyk og ljósi blastað yfir gestina og keyrt í Lagið í gær af tvöfalda albúminu Hvarf/heim frá árinu 2007. Ágætt lag en ekkert afgerandi með mörgum tilvísunum í þekkt stef úr góðum lögum, svo sem af svigaplötunni og Takk. Sjóvið var magnað. Á tjaldinu fyrir framan sviðið liðu steingrá ský í bland við skuggamynd af Jónsa djöflast á fiðluboganum, Orri Páll Dýrason hamaðist á ofursnúningi á trommusettinu. Bassi Georgs Holm drundi undir ljósadýrð í bland við hljómborð, fiðlur og brass.

Keyrt var linnulítið í næstu lög af lagalista sem Sigur Rós hefur spilað á túrum upp á síðkastið. Svo féll tjaldið og hljómsveitin kom í ljós. Í boði var dágóður slatti af Ágætis byrjun, svigaplötunni og Takk; Vaka, Svefn-g-englar, Sæglópur, Hoppípolla og hið töfrandi Viðrar vel til loftárása ásamt Hafsól af Von og aðeins tveimur lögum af nýju plötunni sem kom út í vor, Valtara. Aðeins eitt lag fékk að fljóta með af hinni stórgóðu Með suð í eyrum við spilum endalaust. Þetta var stórkostlegt. Risastór skjár í boga yfir sviðinu var frábær og jók verulega á upplifunina. Þar  liðu yfir myndbönd við lög Sigur Rósar í yfirstærð, dropar féllu og stjörnur skinu. En þetta var sosum ekkert nýtt. Mér þótti sviðið reyndar flottara í Laugardalshöllinni fyrir sex árum.

Óheppni með nóturnar

En fleira vakti undrun mína. Það sem helst kom á óvart var að stöku sinnum virtist örla á taugatitringi hjá bandinu, hjá þessari líka súpersveit sem ætti að vera orðin fullslípuð eftir tónleikaferðir um heiminn þvers og kruss. En kannski var það misskilningur, afleiðing fótaþreytu, pirringsins sem var farinn að trufla mig. Mér fannst bandið seint í gang, að því virtist óheppið á nóturnar, ekki eins samstíga og það ætti að vera. Í stað fiðlutóna sem voru himneskir í Viðrar vel til loftárása á Ágætis byrjun voru komnir nöturkaldir hljómar sem virkuðu ómstríðir. Og er þá blástursdeildin ótalin, sem mér þótti ofnotuð. Þegar risaskjárinn datt út og villuskilaboð blöstu við tónleikagestum í smástund fannst mér botninn dottinn úr þessu. Gott ef það örlaði ekki á söknuði hjá mér eftir Kjartani Sveinssyni sem verið hefur fjarri góðu gamni í þeirri tónleikaferð sem nú stendur yfir. 

Skrýtinn brennisteinn

Þegar seig á seinni hlutann og fæturnir alveg búnir á því kynnti bandið nýtt lag, Brennistein. Þarna kíkti Sigur Rós út fyrir dyragætt þægindanna í fyrsta sinn frá Með suð í eyrum við spilum endalaust fyrir fjórum árum. Jónsi kynnti lagið með þeim orðum að hljómsveitin hefði aldrei spilað lagið fyrr og ýmislegt gæti komið upp á.

Í upphafi lagsins bauð Georg upp á gamla elektróníska takta sem virtust hafa staðið út af við gerð Amnesiac og kannski The King of Limbs með nýrri platna Radiohead. Inn í lagið blönduðust sárir gítartónar, einkenni Sigur Rósar sem minna mig á ský. Ég botnaði lítið í trommutaktinum, sem líktist Glow með Retro Stefson. Ég ítreka þreytuna, fannst lagið einkennilegur bræðingur, stefnulaust, nánast eiginlega hvorki fugl né fiskur. Lagið var spilað undir gríðarlega geysiflottuflottu ljósasjóvi, lasergeislum sem skutust veggja á milli og sköpuðu flotta stemningu á sviðinu. Þetta, að mínu viti, hefði verið betra með fullburða lagi.

Í bláum sófa í Hlíðunum

Nú hljóma ég vafalítið eins og nöldurseggur með engan áhuga á tónlist Sigur Rósar. En því fer fjarri. Ætli ég hafi ekki fylgt hljómsveitinni eftir í einhver 13, kannski 14 ár. Ég tók Flugufrelsarann upp á kassettu þegar Árni súri var eini útvarpsmaðurinn sem spilaði lög Sigur Rósar á X-inu öðru hvoru megin við áramótin 1998. Ég fór fyrst á tónleika með Sigur Rós á Gauknum, líklega árið 1999 frekar en 1998 þegar bandið hitaði upp með KK fyrir Bonnie Prince Billy. Aftur sá ég hljómsveitina í Háskólabíói haustið 1999 frekar en árið 2000. Þeir eru orðnir þónokkrir tónleikarnir síðan þá.

Ég keypti Ágætis byrjun tvisvar og spilaði plötuna áreiðanlega milljón sinnum þegar ég lá uppi í bláum sófa í risíbúð í Hlíðunum á sínum tíma og horfði á skýin færast hægt yfir. Mér fannst svigaplatan, sem fékk blendin viðbrögð hjá mörgum í fyrstu, frábær. Ég á allar hinar plöturnar. Meira að segja Von og Vonbrigði eru í geisladiskarekkanum. Hoppípolla af Takk er hringitónninn í símanum mínum. Lagið vekur mig líka. Þetta er magnað stöff.

Hvað tónleikana á sunnudag snertir þá þvældist ég í gegnum svitastorkna mannþröngina með óminn í eyrunum tveimur tímum eftir að herlegheitin hófust allt annað en sáttur og að drepast í löppunum. Þrátt fyrir frábæra sýningu, guðdómalega tónlist og æðislega lokatóna í síðasta laginu eins og Sigur Rós er von og vísa þá bjóst ég við meiru, mér fannst vanta upp á kikkið.  

Höfundur: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. jon@vb.is

Hér að neðan má sjá og hlýða á nokkur lög sem Sigur Rós flutti á tónleikunum á sunnudag.

   


Stikkorð: Sigur Rós