*

Sport & peningar 3. júlí 2019

Beiðnir um vegabréf hrannast inn

Twitter grín hins íslenska krikketsambands hefur aldeilis undið upp á sig.

Twitter-reikningur hins íslenska krikketsambands hefur slegið í gegn í löndum þar sem krikket nýtur vinsælda. Nýjasta uppátæki sambandsins hefur vakið sérstaklega mikla kátínu og haft talsverða umfjöllun í för með sér.

Nú stendur yfir heimsmeistarakeppnin í krikket og venju samkvæmt er Indland á meðal þeirra þjóða sem tekur þátt. Liðið hefur hins vegar verið í basli sem má að stórum hluta rekja til meiðsla lykilmanna. Leikmennirnir Shikhar Dhawan og Vijay Shankar hafa þurft að draga sig úr hópnum og voru Rishabh Pant og Mayan Agarwal kallaðir í hópinn í þeirra stað.

Það þýðir að hinn reynslumikli Ambati Rayudu hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd af aðdáendum liðsins sem velta því fyrir sér hve vel hann þurfi að spila með félagsliði sínu til að komast að með landsliðinu.

Íslenska krikketsambandið sá í þessu gullið tækifæri en það ákvað að bjóða Rayudu ríkisborgararétt hér á landi svo hann gæti spilað með íslenska landsliðinu. Tístið hefur notið mikilla vinsælda hjá krikketaðdáendum og hafa sambandinu borist fjölmargar beiðnir frá öðrum íbúum jarðarkringlunnar sem vilja flytjast hingað til lands.

„Við elskum ykkur öll mjög mikið en viljið þið vinsamlegast hætta að senda okkur tölvupóst og biðja okkur um að útvega vegabréfsáritun svo þið getið spilað fyrir Ísland. Við erum aðeins stjórn sambandsins. Við veljum landsliðið okkar úr hópi íbúa Íslands. Við leggjum til að þið sækið um hjá Englandi. Þau velja hvern sem er í liðið,“ segir í öðru tísti frá hinu íslenska sambandi.

Boð íslenska sambandsins hafði ekki tilætluð áhrif en Rayudu tilkynnti í dag að hann væri hættur að leika krikket, bæði með landsliðinu svo og öðrum liðum. Áhugamönnum um feril hans er bent á Wikipedia en satt best að segja skiljum við lítið í þeirri tölfræði sem þar kemur fram.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is