*

Veiði 4. apríl 2014

Bender spáir góðri veiði

Stangveiðitímabilið hófst formlega í vikunni. Gunnar Bender spáir því að sumarið verði gott. Enn er óvíst hvort hann verði áfram með sjónvarpsþáttinn Veiðivaktina á ÍNN.

Trausti Hafliðason

Það vita flestir í veiðiheiminum hver Gunnar Bender er. Segja má að hann hafi helgað líf sitt veiðinni og undanfarin ár hefur hann til dæmis verið með veiðiþætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN, haldið úti umfjöllun um veiði á vefmiðlinum Pressunni og gefið út Sportveiðiblaðið. 

Gunnar er alinn upp á mölinni og segist hafa verið fimm ára þegar hann byrjað að veiða á ræsinu á Laugarnesi, skammt frá frystihúsinu á Kirkjusandi sem nefnt var Júpíter og Mars.

„Við stóðum á ræsinu fyrir neðan frystihúsið og veiddum þorsk, ufsa og hinar og þessar tegundir. Þar kviknaði áhuginn. Síðan var ég í sveit í Skagafirði og þar veiddi maður líka."

Veiðitímabilið hófst formlega á þriðjudaginn en þá opnuðu nokkur vötn og veiði hófst í fjölmörgum sjóbirtingsám. Gunnar er nokkuð bjartsýnn á að vorðveiðin verði góð.

„Staðan hefur auðvitað gjörbreyst á síðustu tveimur vikum. Það hefur hlýnað gríðarlega mikið og ég býst því allt eins við því að þetta verði fín byrjun."

Veiðisumarið í fyrra var frábært. Tæplega 70 þúsund laxar veiddust á stöng sumarið 2013, sem er næstum tvöfalt meiri veiði en sumarið 2012 þegar 35 þúsund laxar veiddust. En er Gunnar bjartsýnn á komandi veiðisumar?

„Já, ég held að þetta verði bara mjög gott sumar. Vatnssbúskapurinn er í góðu standi enda er snjór víða um land. Ég er kannski helst hræddastur um veiðina á Vesturlandi. Hún var góð í fyrra en sagan segir okkur að þegar það gerist þá verði næsta ár ekki jafn gott - veiðin gæti færst norður og austur. Þetta er samt allt spurningarmerki. Það átti auðvitað engin von á neinu í fyrra en síðan varð veiðin bara alveg ótrúlega góð."

Í samningaviðræðum við Ingva Hrafn

Gunnar byrjaði með veiðiþáttinn Veiðivaktina á ÍNN, sjónvarpsstöð Ingva Hrafns Jónssonar, síðan sumarið 2010. Síðustu fjögur sumur hefur hann verið með vikulegan þátt á stöðinni.

Spurður hvort hann verði áfram með Veiðivaktina í sumar svarar Gunnar:  „Ég veit ekki enn hvernig það fer, þetta er allt í biðstöðu sem stendur. Það er svakaleg vinna í kringum þessa þætti. Þetta er nánast eins og að fara á sjóinn - þetta er bara útgerð. Ég mun eiga fund með Ingva Hrafni á næstu dögum og þá ætti þetta að skýrast."

Gunnar er með mörg járn í eldinum en auk þess að vera í samningaviðræðum við ÍNN um Veiðivaktina er hann líka í samningaviðræðum við 365 miðla um að vera með veiðiþætti á Bylgjunni. Þá er hann búinn að endurvekja Sportveiðiblaðið og kom það út fyrir fáeinum vikum eftir að hafa legið í dvala á síðasta ári.

Gunnar stofnaði blaðið ásamt Þresti Elliðasyni og Steingrími Steingrímssyni 32 árum. Nú gefur hann það út einn en nýtur liðsstyrks Ingimundar Bergssonar, framkvæmdastjóra Veiðikortsins, ásamt því sem fjöldi manna skrifaði greinar í blaðið.

„Sportveiðiblaðið er komið á siglingu aftur. Við stefnum að því að gefa út blað í júní og síðan aftur í haust."

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Gunnar Bender. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .