*

Menning & listir 24. maí 2013

Benni Hemm Hemm gefur út sex ný lög á nótnaformi

Á morgun verður fjör í verslun Útúrdúrs á Hverfisgötunni þar sem útgáfu sex nýrra laga Benna Hemm Hemm á nótnaformi verður fagnað.

Lára Björg Björnsdóttir

„Þetta eru lög sem ég hef verið að spila með hljómsveitinni minni síðastliðið ár. Venjulega hef ég farið í stúdíó og tekið upp og gefið út plötu, en í þetta skiptið fannst mér pappír vera viðeigandi útgáfuform,” segir tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm en á morgun gefur hann út sex ný lög í samvinnu við bókaútgáfuna Útúrdúr.

Lögin eru gefin út á nótnaformi, á misstórum örkum, á ýmsum formum, og henta allavega hópum tónlistarflytjenda. 

Benni Hemm Hemm hefur leikið lögin á tónleikum undanfarið ár en þau hafa aldrei verið hljóðrituð. Nóturnar eru gefnar út sem sjálfstæð myndverk, en Orri Jónsson og Ingibjörg Birgisdóttir hönnuðu myndræna útfærslu hvers lags: „Tónlist hefur verið gefin út á pappír í mörghundruð ár og mér fannst spennandi að prófa það einu sinni,” segir Benni.

Haldið verður upp á útgáfuna á morgun í verslun Útúrdúrs á Hverfisgötu 42 klukkan þrjú. Benni Hemm Hemm mun leika nokkur lög og gestum verður boðið upp á léttar veitingar. 

Stikkorð: Tónlist  • Útgáfa  • Benni Hemm Hemm