*

Bílar 4. september 2018

Benz afhjúpar Tesla keppniaut

Mercedes-Benz afhjúpaði í dag fyrsta hreina rafbíl sinn, jeppling sem drífur 450 kílómetra á hleðslu og er ætlað að keppa við Tesla.

Júlíus Þór Halldórsson

Mercedes-Benz afhjúpaði í dag EQC; nýjasta rafbíl fyrirtækisins, og þann fyrsta sem einungis er knúinn með rafmagni. Með honum hyggst þýski lúxusbílaframleiðandinn veita Tesla harða samkeppni á markaðnum fyrir lúxusrafbíla, en eins og er nýtur Tesla mikilla yfirburða í sínum flokki.

Nýi bíllinn – sem er jepplingur (SUV) með 450 kílómetra drægni – mun þó aðeins vera upphafið á „árásargjarnri“ innreið Mercedes-Benz á markaðinn, en fyrirtækið ætlar sér að vera komið með allt að 10 útgáfur rafbíla árið 2022, og vonast til að þeir muni standa undir 15-25% sölutekna árið 2025.

Vinsældir rafbíla hafa aukist mikið síðustu ár, meðal annars vegna stuðnings frá stjórnvöldum. Dieter Zetsche, framkvæmdastjóri Daimler AG, sem framleiðir Mercedes-Benz, gerir ráð fyrir að rafbílarnir 10 sem nú þegar eru í burðarliðnum muni höfða til um 60% þess markhóps sem félagið hefur augastað á.

Hingað til hefur Tesla fengið litla sem enga samkeppni, sem hefur gert félaginu kleift að selja hreina rafbíla sína dýrt þrátt fyrir að hafa verið tiltölulega lítið og upphaflega óþekkt fyrirtæki með mjög stutta sögu í samanburði við aðra bílaframleiðendur, og engin þjónustuumboð.

Þýsku bílafyrirtækin hafa hinsvegar yfir 100 ára sögu og stóran og tryggan kúnnahóp á bak við sig, og á sama tíma og rafbílar þeirra eru að koma á markaðinn nú, hafa vaknað upp spurningar um getu Tesla til að auka framleiðslugetu sína og tryggja félaginu nægar tekjur.

Stikkorð: Daimler  • Mercedes-Benz  • Tesla  • EQC  • Dieter Zetsche