
Vision Tokyo er nýjasti hugmyndabíll eða 'concept car' þýska bílaframleiðandans Mercedes Benz. Rennireiðin var frumsýnd á bílasýningu í Tokyo.
Mótor bílsins er tvískiptur eftir rafmagni og vetnisbruna, og á að hafa 980 kílómetra drægni. Þar af eru 190 aðeins knúnir af rafmagni.
Bifreiðin keyrir sig að sjálfsögðu sjálf, en vilji einhver farþega spreyta sig við aksturinn getur hann einfaldlega smellt á hnapp þannig að upp komi stýri og bílstjórasæti inni í setuklefanum.
Sérstaka athygli vekur grill bílsins, en það er einskonar tónlistar-kameljón. Litadýrð skín úr grillinu, og litavalið breytist með tónlistarvali farþeganna.
Það er svo einnig upplifun í sjálfu sér að setjast inn í bílinn. Kagginn er búinn vænghurðum og við komu inn í bílinn blasa við manni eins konar setusófar - enda engin þörf á að einhver keyri bílinn.
Hægt er að sitja í sófa og glápa á sjónvarpið í Vision Tokyo, en auk þess er lúxubifreiðin búin heilmyndarbúnaði til afþreyingar. Bíllinn er því nánast eins og tekinn beint upp úr vísindaskáldsögu.