*

Tölvur & tækni 29. júlí 2013

„Berðu líf þitt saman við mitt og dreptu þig svo“

Tölvuleikjahönnuður hætti vinnu við tölvuleik eftir harkalegt rifrildi á Twitter.

Tölvuleikjahönnuðurinn Phil Fish, sem vakti töluverða athygli með leiknum FEZ í fyrra, hætti í fússi vinnu við framhaldið FEZ 2 eftir rifrildi á Twitter. Sagt er frá þessu á vefsíðunni The Verge.

Fish hefur lengi vakið athygli fyrir harðorða og umdeilda gagnrýni á tölvuleikjaiðnaðinn. Tölvuleikjagagnrýnandinn Marcus Beer, sem gengur undir nafninu AnnoyedGamer, hellti sér yfir Fish í myndbandi á dögunum þar sem hann var kallaður öllum illum nöfnum eftir að Fish neitaði að tjá sig um þá ákvörðun Microsoft að leyfa sjálfstæðum tölvuleikjaframleiðendum að gefa út leiki sína sjálfir fyrir Xbox One leikjatölvuna.

Eftir að myndbandið kom út tókust þeir Fish og Beer á á Twitter samskiptasíðunni og hélt Fish því fram að Beer hefði framið mannorðsmorð og krafðist afsökunarbeiðni. Sagði Fish m.a. við Beer: „Berðu líf þitt saman við mitt og dreptu þig svo.“

Átökin voru Fish svo erfið að skömmu síðar skrifaði hann: „Ég er hættur. Hætt hefur verið við FEZ II. Bless.“ Svo læsti hann Twitter reikningi sínum.

Stikkorð: Tölvuleikir