*

Matur og vín 16. júní 2014

Berglind nýtir tæknina óspart í bakstrinum

Berglind Hreiðarsdóttir hefur lengi haft áhuga á bakstri og í dag virðast dætur hennar hafa smitast af þessum áhuga.

Edda Hermannsdóttir

„Ég man eftir mér með matreiðslubækurnar á lofti frá unga aldri og merkilegt hvað foreldrar mínir leyfðu mér að fara frjálsum höndum um eldhúsið“, segir Berglind Hreiðarsdóttir um upphafið á bakstursáhuganum. Berglind heldur úti vefsíðunni Gotterí og gersemar þar sem má finna margar ómótstæðilegar freistingar.

„Ég man að ég fékk að prófa mig áfram svo lengi sem ég gekk frá eftir mig og styðst ég sjálf við þá reglu í dag þegar dætur mínar vilja baka. Setningin „sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ á held ég vel við því ósjaldan fara þær á kostum í eldhúsinu og koma mér sífellt á óvart með nýstárlegum hugmyndum sínum. Þegar ég var ung notaðist ég ýmist við uppskriftir úr matreiðslu úr skólanum eða gluggaði í þær uppskriftabækur sem til voru. Þetta var fyrir tíð netvæðingarinnar og var einungis við texta í bókum að styðjast í flestum tilfellum. Í dag er þetta svo einfalt, það eru óteljandi uppskriftir á netinu, bæði í máli og myndum, svo nú er hægt að komast hjá ýmsum mistökum með aðstoð tækninnar. Ég sjálf nýti mér þessa tækni óspart í dag og fæ flestar mínar hugmyndir frá erlendum bloggsíðum og netmiðlum almennt,“ segir hún.

Rætt er við Berglindi í Eftir vinnu blaðinu sem kom út með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.