*

Matur og vín 8. mars 2014

Bergþóra: Elskar afmælishald meira en jólin

Barnaafmæli eru stærstu veislur ársins á heimili Bergþóru Magnúsdóttur og dóttur hennar, Ragnheiðar Bjartar.

Lára Björg Björnsdóttir

„Lykillinn að góðu barnaafmæli er fyrst og fremst gleði,“ segir Bergþóra Magnúsdóttir, grafískur hönnuður og búningahönnuður, um hvernig skal halda vel heppnað barnaafmæli. Bergþóra býr í fallegu einbýlishúsi í Heiðargerði. Húsið byggðu afi hennar og amma árið 1952 og bjuggu þar alla sína tíð. Í dag býr Bergþóra í húsinu með dóttur sinni, Ragnheiði Björt sem er 5 ára.

„Svo skemmir ekki fyrir að byrja að skipuleggja afmælið nógu snemma og ákveða þema í samráði við afmælisbarnið sem mér finnst mjög mikilvægur útgangspunktur í öllum veisluhöldum. Og síðast en ekki síst reyna að gera þetta eins einfalt og hægt er til að afmælisgleðin týnist ekki í látunum, þar tala ég af reynslu,“ segir Bergþóra hlæjandi.

Bergþóra er veisluglöð og nýtur þess að fá gesti inn á heimilið. Ragnheiður Björt á afmæli 14. desember og þá er fjör á heimilinu. „Ég var sjálf lítið afmælisbarn en það breyttist þegar ég eignaðist dóttur mína. Hún elskar afmælishald meira en jólin. Ég hef staðið sjálfa mig að því að biðja um óskalag á Hamborgarafabrikkunni á afmælisdegi hennar, og það oftar en einu sinni. Við fögnum því afmæli hennar og erum búnar að koma okkur upp nokkrum góðum afmælishefðum sem eru þó stöðugt í þróun hjá mér og dóttur minni. Fastir liðir hjá okkur eru kórónugerð fyrir afmælisbarnið ásamt því að baka muffins með hvítu ,,frosting” sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur.“

Bergþóra Magnúsdóttir segir nánar frá muffins kökunum og gleðinni á bak við barnaafmæli í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Matur  • Fegurð  • Barnaafmæli  • Gaman